139. löggjafarþing — 144. fundur,  8. júní 2011.

skuldalækkun og ábyrgð á húsnæðislánum.

834. mál
[15:19]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Sigmundur Davíð Gunnlaugsson) (F):

Virðulegur forseti. Við höfum mikið rætt um skuldir heimilanna í þinginu undanfarin ár og er óþarfi að rekja alla þá sögu hér. Skemmst frá því að segja að niðurstaðan varð sú að þær aðgerðir sem áttu að marka lokaáfangann í því að slá skjaldborg um heimilin, eins og það var kallað, gengu skemmra en bankarnir sjálfir voru tilbúnir til og höfðu gert ráð fyrir. Eitt af því sem stjórnvöld hafa bent á sem mikilvægan áfanga í að slá skjaldborg um heimilin er 110%-leiðin svokallaða. Reyndar voru bankarnir þegar byrjaðir að notast við þá leið og rökin voru ekki hvað síst þau — þau rök hafa komið fram oft áður víða annars staðar þar sem menn hafa staðið frammi fyrir sambærilegum aðstæðum — að það væri ekki hagkvæmt að halda til streitu innheimtu á skuldum sem væru komnar langt umfram veðið sem stæði að baki þeim, getuna til að standa undir afborgunum. Hins vegar hefur raunin orðið sú að vikið er frá þeirri leið í mjög mörgum tilvikum. Þar kemur til sögunnar smáa letrið, alls konar hliðarskilyrði sem ekki var mikið fjallað um þegar þetta var kynnt sem mikil umbótaleið. Þrátt fyrir að rökin séu þau sem ég nefndi áðan, að það sé í raun ekki hagkvæmt að reyna að innheimta miklu meira en veðið sem að baki liggur, hafa menn t.d., svo ég nefni nú eitt af hliðarskilyrðunum eða smáa letrið, ekki verið reiðubúnir til að ráðast í leiðréttingu eða lækkun skulda hjá fólki sem hefur ábyrgðarmenn á hluta lána sinna. Hvar standa þá þeir sem keyptu sér húsnæði áður en 90–100% lán bankanna komu til sögunnar, þeir sem fóru varlega, keyptu sér húsnæði áður en þessi háu lán komu til sögunnar, en fengu eðli málsins samkvæmt ábyrgðarmenn?

Tökum sem dæmi 125% skuldsetningu þar sem 109% eru á eigin eign og 16% þá hjá foreldrum til að mynda, hafi foreldrar skrifað upp á sem ábyrgðarmenn. Á ekkert að gera fyrir þetta fólk? Hvaða sanngirni er í því? Ef sú er raunin, sýnir það þá ekki hversu lítið var að marka alla umræðuna um sanngirni í tengslum við þessi mál hafi menn ætlað að ráðast í eitthvað sem kalla mætti leiðréttingu, að það hafi með öðrum orðum bara snúist um að reyna að kreista sem mest út úr skuldurum eða ábyrgðarmönnum í slíkum tilvikum en hafi ekkert haft með sanngirni eða jafnræði að gera?