144. löggjafarþing — 144. fundur,  2. júlí 2015.

uppbygging innviða vegna atvinnustarfsemi í landi Bakka.

800. mál
[12:58]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Það er ágætt að við getum verið sammála um eitthvað og ég tek undir þessi síðustu orð hv. þingmanns. Það er gott að hann áttar sig á því að bæði er það nauðsynlegt og líka fullkomlega réttlætanlegt að ganga lengra í ívilnunum þegar verið er að koma af stað starfsemi á svæðum sem fjær liggja, eru kaldari í byggðalegum skilningi.

Varðandi afstöðu mína til annarrar stóriðjuuppbyggingar sem hv. þingmaður saknaði að ég svaraði einhverju um, eins og á Grundartanga og í Helguvík, þá sagði ég að vísu ekki eitt orð um það í andsvari mínu og hv. þingmaður hefur þar af leiðandi engar forsendur til að gera mér upp afstöðu í þeim efnum. Ég tek ekki afstöðu til þessara hluta á kjördæmaforsendum. Framkvæmdir fóru af stað eða voru í undirbúningi á síðasta kjörtímabili, t.d. tvö gagnaver, annað í Hafnarfirði, hitt í Reykjanesbæ, kísilver, ég skrifaði undir einhvern samning um það og var undanfari þess sem nú er að rísa í Helguvík. Það var í Helguvík, ekki í Norðausturkjördæmi, og ég held að ég þurfi ekki að sitja undir því sem stjórnmálamaður að ég hafi verið í sérstöku kjördæmapoti í gegnum tíðina. Mínir kannski fyrstu og erfiðustu slagir sem nokkurn veginn fullburða stjórnmálamanns voru þegar ég var ráðherra á hinni öldinni, hvað var það? Það voru Vestfjarðagöng. Það voru Hvalfjarðargöng og það var bygging nýs Herjólfs. Ekki var það í Norðausturkjördæmi. Sumum fannst það reyndar skrýtið að ég væri að hálfdrepa mig pólitískt á því að berjast fyrir stórframkvæmdum í fjarlægum landshlutum, en það var af því að ég var og er þeirrar skoðunar að við hefðum þurft að styðja miklu betur og búa betur að Vestfjörðum, þá hefði ekki verið jafn óhagstæð og neikvæð þróun og þar hefur verið. Nóg er nú kvótakerfið þó að hitt bætist ekki við, að stjórnvöld hafa oft og tíðum sýnt þeim takmarkaðan stuðning. Ég legg niður nákvæmlega sömu forsendur þegar ég met það hvort ég er stuðningsmaður einhverrar atvinnuuppbyggingar hvort sem það er í Norðausturkjördæmi eða annars staðar. Það gildir um Grundartanga, það gildir um Norðvesturkjördæmi, það gildir um Suðurnes að það sé ásættanlegt frá þjóðhagslegu en fyrst og fremst umhverfislegu sjónarmiði að ekki séu færðar óverjandi fórnir gagnvart náttúru landsins þegar slík atvinnuuppbygging fer af stað og þar fram eftir götunum.