138. löggjafarþing — 144. fundur,  16. júní 2010.

Stjórnarráð Íslands.

658. mál
[12:14]
Horfa

Valgerður Bjarnadóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég heyrði ekki betur en að hv. þingmaður væri á því að ýmislegt mætti laga í uppbyggingu Stjórnarráðsins. Hér liggur fyrir tillaga sem er lögð fyrir Alþingi. Ég hef lýst því áður að ég skil ekki almennilega hvað hv. þingmenn eiga við þegar þeir tala um samráð. Mér sýnist það einmitt vera þegar frumvarp af þessu tagi kemur inn í þingið, þá hefst opið samráð við alla stjórnmálaflokka í þingnefndum. Þingnefndir geta auðveldlega sett niður í nefndaráliti hvernig þær telja að þessum tilflutningi verði best hagað.

Ég vil líka, hæstv. forseti, nefna þetta skilningsleysi sem mér finnst margir hafa á samráði. Það einkennir Samtök atvinnulífsins. Hjá þeim eins og hjá Sjálfstæðisflokknum þýðir samráð: Ég ræð. Ég vil spyrja hv. þm. Bjarna Benediktsson: Hvers vegna í ósköpunum er ekki hægt að taka þetta á jákvæðu nótunum frekar en eins og alltaf og eilíflega á neikvæðu nótunum sem liggja hér yfir? Þannig móttökur fá öll mál sem lögð eru fram í þessum sal.