138. löggjafarþing — 144. fundur,  16. júní 2010.

umboðsmaður skuldara.

562. mál
[16:56]
Horfa

Sigríður Ingibjörg Ingadóttir (Sf) (um atkvæðagreiðslu):

Frú forseti. Hér göngum við til atkvæða til að senda til nefndar á milli 2. og 3. umr. mál ríkisstjórnarinnar og hæstv. félags- og tryggingamálaráðherra um umboðsmann skuldara. Hér erum við að setja á stofn ríkisstofnun sem á að hafa það hlutverk að gæta að hagsmunum skuldugra íslenskra heimila. Ég fagna því. Þetta var tímabært skref fyrir íslenska lántakendur sem hafa ekki notið sömu neytendaverndar og neytendur í öðrum Evrópuríkjum. Því segir Samfylkingin já við þessu máli.