138. löggjafarþing — 144. fundur,  16. júní 2010.

varnarmálalög.

581. mál
[17:08]
Horfa

Bjarni Benediktsson (S):

Virðulegi forseti. Fyrir tveimur árum kom hingað í þingsal hæstv. utanríkisráðherra, þáverandi formaður Samfylkingarinnar, með frumvarp um að stofna Varnarmálastofnun, færði fyrir því rök að það væri nauðsynlegt til þess að halda utan um varnarskuldbindingar okkar Íslendinga gagnvart Atlantshafsbandalaginu. Nú tveimur árum síðar kemur utanríkisráðherra, ekki hinn sami og áður en úr sama flokki, og segir algeran óþarfa að reka Varnarmálastofnun. Ekki er gerð grein fyrir því hvert verkefnin eigi að flytjast, ekki er farið ofan í saumana á því hvað eigi að sparast. Það er bara sagt að það séu ýmsir möguleikar í stöðunni og farið fram á það við þingið að það veiti heimild til þess að leggja stofnunina niður. Svona getum við ekki fallist á að staðið verði að málum. Þetta er ekki til eftirbreytni eða fyrirmyndar. Það er ekkert annað að gera en að segja nei við þessum lögum og fara fram á það við ríkisstjórnina að hún undirbúi málin betur en gert hefur verið í þessu tilviki.