139. löggjafarþing — 144. fundur,  8. júní 2011.

stuðningur Íslands við aðgerðir NATO í Líbíu.

[12:20]
Horfa

Valgerður Bjarnadóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Illt skal með illu út reka. Það á sannarlega við þegar fjallað er um aðgerðir í kjölfar samþykktar öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna nr. 1973 um loftferðabann yfir Líbíu frá 17. mars sl. Öryggisráðið samþykkti ekki aðeins loftferðabannið heldur leyfði einnig að beitt yrði öllum tiltækum ráðum til að koma til liðs við og vernda óbreytta borgara í Líbíu. Dóninn Gaddafí sem haldið hefur þjóð sinni í heljargreipum frá því að hann rændi völdum árið 1969 og misboðið henni og umheiminum í meira en 40 ár gekk loks svo langt á fyrstu mánuðum ársins að alþjóðasamfélagið brást við.

Virðulegi forseti. Ég veit ekki mikið um hernað og vona reyndar að ég þurfi aldrei að vita mikið um slíkar aðgerðir. Til að framfylgja flugbanninu yfir Líbíu mun hins vegar nauðsynlegt að beita hervaldi. Þegar margir koma að verkefni er nauðsynlegt að einhver samhæfi aðgerðir og ég trúi að það eigi ekki síst við um hættulegar aðstæður eins og þær sem nú ríkja í Líbíu.

Sum NATO-ríkin höfðu þegar hafið þar aðgerðir þegar Norður-Atlantshafsráðið ákvað að herstjórn bandalagsins skyldi samhæfa þær. Þær aðgerðir eru allar innan þeirra marka sem sett voru með samþykkt öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna. Við erum aðilar að NATO og höfum stutt þessar aðgerðir. Áður en ákvörðun var tekin í Norður-Atlantshafsráðinu nú síðast um að halda aðgerðunum áfram bar utanríkisráðherra málið undir utanríkismálanefnd og sá ekki annað en að hann hefði stuðning þingsins til þess. Hér hefur því verið staðið rétt að málum.

Virðulegi forseti. Það er forsenda fyrir stuðningi Íslands við aðgerðir Atlantshafsbandalagsins að þær rúmist innan umboðs öryggisráðsins og miði að því að vernda líf óbreyttra borgara. Ég tel það hina réttu stefnu við þær hroðalegu og sorglegu aðstæður sem eru í Líbíu.