139. löggjafarþing — 144. fundur,  8. júní 2011.

fundarstjórn.

[12:39]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F):

Virðulegi forseti. Við höfum undanfarna daga þegar kemur að þingstörfunum orðið vitni að vinnubrögðum sem eru til skammar. Það er rétt, sem hér hefur komið fram, að menn lögðu mikið á sig og reyndu að ná sáttum um frumvarp um sjávarútvegsmál sem var afgreitt frá nefndinni í miklum ágreiningi í morgun. Þar höfðu bæði stjórn og stjórnarandstaða teygt sig gríðarlega langt til að ná samkomulagi. Því er það mjög sorglegt að forsætisráðherra skuli hafa lagt stein í götu þess samkomulags, því að það er engin önnur skýring á því miðað við það hve langt var komið hér í gær, nema þá að hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra hafi líka guggnað, eins og sagt er, í þessu máli.

Herra forseti. Það er mjög mikilvægt að þingið og forseti beiti sér fyrir því að farið verði yfir hvernig þetta mál var allt unnið og hvernig það hefur þróast. Það er algjörlega ótækt að mál sé afgreitt (Forseti hringir.) gegn öllum umsögnum, gegn öllum tillögum gesta sem komu fyrir nefndina og þvert á allt sem hægt er að segja að sé eðlilegt.