139. löggjafarþing — 144. fundur,  8. júní 2011.

afgreiðsla frumvarps um stjórn fiskveiða.

[13:05]
Horfa

Einar K. Guðfinnsson (S):

Virðulegi forseti. Það hefur verið mjög aumkunarvert að hlusta á þingmenn Vinstri grænna bera í bætifláka fyrir þau makalausu vinnubrögð sem voru viðhöfð af hálfu meiri hluta sjávarútvegs- og landbúnaðarnefndar í morgun, og það eftir margar innblásnar ræður um að nú þurfi allir þingmenn að taka sig taki og reyni að bæta vinnubrögðin. Svo sjáum við vinnubrögðin í morgun. Lagt er á borð hjá okkur þingmönnum í sjávarútvegs- og landbúnaðarnefnd sex eða átta blaðsíðna nefndarálit sem greinilega var búið að kokka dögum saman og síðan er því skellt fram til okkar og sagt: Heyrðu, þetta er niðurstaðan og þið þurfið bara vessgú að kyngja því. Það eru auðvitað engin vinnubrögð. Þetta er þó ekki sérstaklega alvarlegt gagnvart okkur í stjórnarandstöðunni. Það sem er alvarlegast í þessu er auðvitað það sem verið er að bjóða íslenskum sjávarútvegi upp á og það er hlutur sem ég hlakka svo sannarlega til að ræða þegar það mál kemur hingað til umræðu.

Nú er sagt að verið sé að teygja sig til samkomulags með alls konar tilboðum í þessum breytingum. Ég vek athygli á því að ein þeirra breytinga sem verið er að leggja til (Forseti hringir.) í áliti meiri hlutans er að hætta við að brjóta stjórnarskrána. Er það gert (Forseti hringir.) af einhverri tillitssemi við stjórnarandstöðuna? Eða hvernig er það, stóð þá kannski til (Forseti hringir.) að reyna að brjóta stjórnarskrána, eins og greinilega var ætlunin með því (Forseti hringir.) frumvarpi, eins og það var lagt fram í upphafi?