139. löggjafarþing — 144. fundur,  8. júní 2011.

hækkun skatta og gjalda.

832. mál
[16:11]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S):

Virðulegi forseti. Það er orðið þjóðþekkt að hv. þm. Pétur H. Blöndal er í mjög góðu skapi þessa dagana og tekur þessari ósvífni því létt. Ég geri það ekki. Hv. þm. Sigmundur Davíð Gunnlaugsson spyr hæstv. ráðherra og hæstv. ráðherra segir að þetta sé bara alveg frábært, þetta sé í þessari bók hérna, og svo veifar hann henni. Svo fer hann bara að hjala um hugmyndir sínar um skattkerfið og réttlátt þjóðfélag. Það er nú ræða sem maður vill helst sleppa við að hlusta á.

En aðalatriðið er þetta: Hingað kemur hv. þingmaður og spyr hæstv. ráðherra og það hvarflar ekki að hæstv. ráðherra að svara. Ekki eina stutta stund. Af hverju svara hæstv. ráðherra öllum spurningum ekki bara á þann veg að þetta sé allt á alnetinu, þetta sé bara á internetinu og hv. þingmenn geti bara farið þangað? Hann getur alveg eins gert það eins og haldið þessa ótrúlegu ræð hér.

Ég spyr virðulegan forseta hvort þetta sé eitthvað sem menn muni komast upp með, hæstv. ráðherrar, að koma hingað upp (Forseti hringir.) og sleppa því fullkomlega að svara því sem þeir eru spurðir um.