139. löggjafarþing — 144. fundur,  8. júní 2011.

erlendir fangar.

838. mál
[16:45]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Sigmundur Davíð Gunnlaugsson) (F):

Virðulegur forseti. Á undanförnum árum hefur við því miður orðið vart við að skipulögð erlend glæpasamtök hafi náð fótfestu á Íslandi. Í því sambandi hafa menn orðið fyrir talsverðum vonbrigðum með Schengen-samstarfið, enda opnast með því greiðari leið á milli landa en áður var fyrir eftirlýsta menn. Danir hafa nú ákveðið að ganga í raun mjög langt í átt að því að efla landamæraeftirlit vegna þess að þeir hafa áhyggjur af slíkri þróun í heimalandi sínu og um það ríkir góð samstaða milli flokka í danska þinginu. Hins vegar hafa Danir fyrir vikið lent upp á kant við félaga sína í Evrópusambandinu sem telja þá í raun brjóta gegn ákvæðum Schengen-samningsins. Það deilumál er óleyst, en Danir leggja mikið upp úr því að þeir hafi rétt á því að verja landamæri sín gegn skipulagðri glæpastarfsemi.

Nú eru flest eða öll fangelsi landsins full. Eitt af því sem var rætt varðandi þetta Schengen-samstarf var að þegar erlendir afbrotamenn væru handteknir í tilteknu landi yrðu þeir í flestum tilvikum sendir til heimalanda sinna til afplánunar. Ég velti fyrir mér hversu vel það hafi gengið eftir. Nú virðist hlutfall erlendra fanga í íslenskum fangelsum vera mun hærra en það var áður en Schengen-samningurinn tók gildi og jafnframt er í sumum tilvikum um að ræða menn sem tilheyra þessum skipulögðu glæpasamtökum og eru meðal annars að mati fangavarða mun hættulegri en þeir afbrotamenn sem þeir hafa fengist við lengst af.

Því spyr ég hæstv. innanríkisráðherra:

Hversu margir erlendir ríkisborgarar eru vistaðir í íslenskum fangelsum nú? Hvernig hefur það hlutfall breyst frá árinu 2001, þ.e. frá því áður en Íslendingar urðu aðilar að Schengen-samkomulaginu?

Ég held að gagnlegt sé að fá þessar upplýsingar af þeim ástæðum sem ég rakti. Við þurfum að velta fyrir okkur hvort Schengen-samstarfið eins og það er núna veitir okkur þá vernd sem við ættum að geta haft eða hvort við þurfum að velta fyrir okkur sams konar aðgerðum og Danir eru núna að fást við. Eins þurfum við að velta fyrir okkur þessu með framsalið, hvort það hafi gengið eftir eins og ráð var fyrir gert.