144. löggjafarþing — 144. fundur,  2. júlí 2015.

réttur til að kalla eftir þjóðaratkvæðagreiðslu.

[11:02]
Horfa

Árni Páll Árnason (Sf):

Virðulegi forseti. Í eldhúsdagsumræðum hér í gærkvöldi bar mikið á því að þingmenn úr öllum flokkum ræddu leiðir til þess að bæta ásýnd þingstarfa, tryggja að við næðum meiri árangri í störfunum, tryggðum betur víðtæka sátt um meginlínur í þingstörfunum og kæmum í veg fyrir hið hráa meirihlutaræði sem hér hefur tíðkast allt of lengi. Hæstv. fjármálaráðherra rakti í ræðu sinni áhuga á ýmsum stjórnarskrárbreytingum sem ég er ánægður með að heyra að hann styður. Í beinni útsendingu í viðtali við Ríkisútvarpið í gærkvöldi ræddum við forsætisráðherra umræður kvöldsins og þá tók hæstv. forsætisráðherra ágætlega í þá hugmynd mína að mikilvægasta framlag okkar til að bæta þingstörfin með stjórnarskrárbreytingum væri að þriðjungur þings gæti komið málum í þjóðaratkvæði.

Mig langar þess vegna að spyrja hæstv. fjármálaráðherra hvort hann sé sama sinnis, hvort við getum reynt að ná saman um það á næstu vikum að samhliða því sem unnið er áfram á vettvangi stjórnarskrárnefndar um breytingar sem fela í sér þjóðareign á auðlindum og möguleika almennings á að kalla eftir þjóðaratkvæðagreiðslum tryggjum við þriðjungi þingmanna líka þennan rétt. Þar með getum við lagt grunn að samningum um breytingar á þingsköpum sem meðal annars fælu í sér styttingu ræðutíma og annars konar breytingar á þingstörfunum sem mundu auðvelda dagskrárvald forseta o.s.frv.