144. löggjafarþing — 144. fundur,  2. júlí 2015.

samgönguáætlun.

[11:14]
Horfa

innanríkisráðherra (Ólöf Nordal) (S):

Virðulegi forseti. Ég er sammála ýmsu í þeim breytingartillögum sem meiri hlutinn kom fram með og ég er sammála ýmsum öðrum tillögum sem heyrst hafa frá ýmsum þingmönnum hér og sveitarstjórnarmönnum og fleirum. Ég get bara ekki uppfyllt allar þær óskir sem þarna birtast, og svo sannarlega ekki á næsta ári. Við vitum til dæmis um þá fjárþörf sem er í, ekki bara vegakerfinu, heldur líka í hafnarframkvæmdum. Ég get bara nefnt sem dæmi að í þessari áætlun var gert ráð fyrir 900 millj. kr. í hafnarframkvæmdir fyrir árið 2016. Við vitum að flestar hafnir landsins voru byggðar þegar mikill vöxtur var í fiskveiðistjórn á sjötta áratugnum og þær voru þiljaðar á þeim tíma. Nú er komið að því að það þarf að stálþilja meira og minna allar stórar hafnir í landinu. Þessir fjármunir munu hvergi nærri duga í slíka hluti, þannig að fjárþörfin er svo víða.

Við getum tekið líka flugvelli víða um land þar sem einnig er mikil fjárfestingarþörf, þannig að kerfið er stórt og það er dýrt. Það þarf að forgangsraða. En það er alveg útilokað fyrir ráðherra samgöngumála að standa að öllum þeim óskalistum sem fram hafa komið.