145. löggjafarþing — 144. fundur,  1. sept. 2016.

eðli og tilgangur þjóðaratkvæðagreiðslna.

[18:20]
Horfa

forsætisráðherra (Sigurður Ingi Jóhannsson) (F):

Virðulegi forseti. Ég þakka þessa umræðu. Hún hefur varpað kastljósi á málið frá ýmsum sjónarhornum, án þess að menn hafi orðið sammála um eitt eða neitt, annað en að beint lýðræði sé eitthvað sem við þurfum að auka. Það er spurning hvaða leið við förum að því. Þjóðaratkvæðagreiðslur eru sannarlega tæki til þess.

Mér finnst umræðan hafa farið svolítið út um víðan völl. Í Sviss, eins og margir hafa bent á, er mjög löng reynsla af slíku fyrirkomulagi. Þar hefur þróunin orðið sú á síðari árum að þjóðaratkvæðagreiðslurnar eru með þeim hætti að niðurstöður þeirra fara síðan til ríkisstjórnarinnar til úrvinnslu. Það er hins vegar talið mikilvægt að spurningarnar séu skýrar til þess að sú afurð sem kemur úr þjóðaratkvæðagreiðslunni sé leiðbeinandi fyrir viðkomandi framkvæmdarvald til að framkvæma það sem þarf að gera.

Af því að hér hefur verið minnst á Reykjavíkurflugvöll þá gæfi til að mynda þjóðaratkvæðagreiðsla um Reykjavíkurflugvöll mjög skýr fyrirmæli frá þjóðinni ef niðurstaðan væri að innanlandsvöllurinn ætti að vera þar, í viðræðum um aðalskipulag Reykjavíkurborgar. Ef Reykjavíkurborg ein telur að hún eigi að hafa valdið þrátt fyrir yfirlýstan vilja þjóðarinnar til annars hlýtur að þurfa að hugsa upp á nýtt hér inni með hvaða hætti það sé, þannig að ég held að hún mundi hjálpa við slíkar afgreiðslur.

Hins vegar vil ég að lokum segja að ég held að við eigum að feta þessa för inn í auknar þjóðaratkvæðagreiðslur, beint lýðræði, varlega. Ég held að við eigum að hlusta á þá sérfræðinga sem hér hafa talað frá Feyneyjanefndinni (Forseti hringir.) sem ráðlögðu bæði okkur að fara varlegar en menn ætluðu á síðasta kjörtímabili, sem og Finnum, og (Forseti hringir.) þróa þá för með þeim hætti til að mynda sem við lögðum til og stjórnarskrárnefndin lagði til fyrr í dag og við ræddum um í frumvarpi til breytinga á stjórnarskránni.