145. löggjafarþing — 145. fundur,  5. sept. 2016.

þunn eiginfjármögnun og skattasamningar við álverin.

[15:05]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Virðulegi forseti. Ég hef þegar lagt fyrir efnahags- og viðskiptanefnd tillögur til breytinga á lögum sem leiða til þess að við setjum í fyrsta skipti reglur um þunna eiginfjármögnun. Þar er um að ræða lagabreytingu sem er mjög í anda þess sem tíðkast hjá OECD-ríkjum. Hvaða áhrif sú lagabreyting kemur til með að hafa á gildandi fjárfestingarsamninga og lög sem hafa heimilað gerð slíkra samninga verður að koma í ljós. En ég tek eftir því að í fjölmiðlum, og mér finnst hv. þingmaður gera það sömuleiðis hér, er ýmislegt fullyrt sem ég hef engin gögn séð um. Það er t.d. fullyrt að menn hafi verið með óeðlilega háan vaxtakostnað. Ég verð að inna hv. þingmann eftir því hvort hún hafi einhverjar upplýsingar um það. Hver eru þau vaxtakjör hjá viðkomandi fyrirtæki sem hv. þingmaður er að vísa til? Hversu miklu hærri eru þau en almennt tíðkast á markaði? Menn nefna uppsafnaðar vaxtagreiðslur yfir mjög langt tímabil, kannski tíu ára tímabil, og segja: Sjáið þið hversu miklir vextir hafa verið greiddir. En í þessu tilviki þá er ekki hægt að gleyma því að menn koma með um 100 milljarða fjárfestingu inn í landið. Skoði menn staðfestingarlögin vegna þessara tilteknu fjárfestingar þá munu menn sjá að aldrei var gert ráð fyrir því að greiddur yrði tekjuskattur af svona stórri fjárfestingu sem skilar engum tekjum á fjárfestingartímabilinu fyrr en komið væri fram undir árið, ef ég man rétt, rétt fyrir 2020. Þetta höfum við vitað síðan framkvæmdirnar fóru af stað.

Að öðru leyti segi ég almennt um þetta: Það er ekki hægt að ræða þessi mál á grundvelli einstakra fyrirtækja, sérstaklega þegar liggja ekki fyrir neinar upplýsingar og hv. þingmaður hefur ekkert gert til þess að auka (Forseti hringir.) upplýsingar inn í þingið um þetta mál. En að öðru leyti birtast mín viðbrögð (Forseti hringir.) í tillögum sem liggja fyrir nefndinni.