145. löggjafarþing — 145. fundur,  5. sept. 2016.

sala á eignum sem komu til frá slitabúum föllnu bankanna.

[15:59]
Horfa

Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir (Vg):

Herra forseti. Ég er ekki alveg sammála síðasta ræðumanni um að hér ríki gagnsæi í öllu því sem hefur farið fram. Þessar eignir telja í kringum 60 milljarða, þ.e. stöðugleikaeignirnar, fyrir utan auðvitað Íslandsbanka. Við erum að tala um alla vega 16 hlutafélög, Sjóvá og Reiti og Lyfju og Dohop og Símann o.fl. Það sem hefur verið nefnt, Reitir, sem í bárust tilboð í 9,9% af heildarhlutafé — það hefur ekkert fengist upplýst að öllu leyti hverjir voru þar kaupendur í rúmlega 6% hluti ríkisins sem var upp á tæpa 4 milljarða kr., ef ég veit rétt. Landsbankinn hefur hins vegar svarað því til að það séu lífeyrissjóðirnir að mestu og verðbréfasjóðirnir en líka einhver hópur fjárfesta. Það er ekki að ósekju að tortryggni ríki um þessar sölur þar sem ríkisstjórnarflokkarnir sem nú sitja við völd eru þeir sömu og einkavæddu bankana síðast. Við munum svo sem öll hvernig það fór. Það að Landsbankinn hafi séð um framkvæmdina er líka hluti af tortryggninni. Það er bara þannig. Hann tapaði miklu trausti þegar Borgunarmálið var í sem mestu hámæli. Þá fékk valinn hópur fjárfesta að kaupa eign á góðu verði sem margfaldaði sig upp á örskömmum tíma, eins og við munum. Það eitt og sér að staðið var að þessari sölu með þeim hætti sem hér var gert yfir helgi getur ekki talist annað en hálflokað og ekki mjög gagnsætt ferli. Landsbankinn hefði átt að líta aðeins til baka og hugsa um Borgunarmálið og leggja sig sérstaklega fram um að vera með þetta mun gegnsærra en hér var. Fjármálaráðherra verður að svara því hvort hann geti með sanni sagt eftir þessa reynslu sem hefur verið nefnd að hæsta verð hafi fengist fyrir Reiti. Hefði opnara ferli hugsanlega skilað hærri tilboðum? Þetta eru gífurlega háar fjárhæðir þar sem virði fjárfestingareigna Reita er nærri 127 milljarðar en markaðsvirði í kringum 61. Það þarf líka að svara því hvers vegna þessi aðferð varð ofan á. Það kemur svo sem ekkert á óvart að Sjálfstæðis- og Framsóknarflokkur haldi áfram á þeirri braut sem hefur verið rakin, að selja eignir föllnu bankanna í framhaldinu í hálflokuðu ferli frekar en opnu. Við verðum líka að hugsa: (Forseti hringir.) Er þetta besta tímasetning sölu slitaeignanna, að rumpa þessu af fyrir áramótin? (Forseti hringir.) Er það besta leiðin til að hámarka það verð sem ríkissjóður fær fyrir eignirnar (Forseti hringir.) eða enda fjárfestar með því að fá þetta á útsöluprís?