144. löggjafarþing — 145. fundur,  2. júlí 2015.

stöðugleikaskattur.

786. mál
[17:34]
Horfa

Frsm. minni hluta efh.- og viðskn. (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg):

Herra forseti. Ég hafði svo sem látið það hvarfla að mér að oddvitar ríkisstjórnarinnar mundu heiðra okkur með nærveru sinni í 2. umr., aðalumræðu um þessi stóru mál, ekki síst t.d. hæstv. forsætisráðherra sem hefði getað verið gaman að geta átt orðastað við hér. En nóg um það.

Ég mæli fyrir nefndaráliti minni hluta efnahags- og viðskiptanefndar. Að því stöndum við hv. þm. Árni Páll Árnason og rétt að skýra það til að taka af allan vafa sem reyndar hefur komið fram að við erum sammála nefndaráliti meiri hlutans og þeim sjónarmiðum sem þar eru sett fram en kjósum að skila séráliti eða viðbótaráliti til að koma ýmsum viðhorfum okkar á framfæri til málanna beggja í heild. Það er ástæða til að undirstrika að hér birtast meirihluta- og minnihlutaálit í öðru frumvarpinu ekki vegna þess að efnahags- og viðskiptanefnd hafi klofnað eða þar hafi risið djúpstæður ágreiningur, þvert á móti. Það var mjög ánægjulegt að vinna í nefndinni í góðri samstöðu að þessu máli og að mínu mati er mikilvæg sú þverpólitíska samstaða sem í grunninn er á bak við rökstuðninginn sem finna má í nefndarálitunum öllum.

Minni hlutinn hlýtur að vekja athygli á því að þessi frumvörp komu seint fram, birtust á Alþingi um miðjan júní. Alþingi hefur þar af leiðandi ekki gefist langur tími til að liggja yfir þeim en ég vil þó hrósa vinnunni í efnahags- og viðskiptanefnd. Nefndin hefur unnið vel og kappsamlega að rannsókn þessa mála og ég tek undir hrós til formanns nefndarinnar, hv. þm. Frosta Sigurjónssonar, sem hefur stýrt þeirri vinnu ágætlega sem og talsmaður fyrir hinu frumvarpinu, Sigríður Á. Andersen, sem lauk sinni framsögu hér áðan. Ég vil þakka öllum félögum mínum í nefndinni og okkar ágætu vösku riturum eða sérfræðingum, starfsmönnum nefndarinnar sem svo sannarlega hafa lagt nótt við dag við þessa vinnu.

Það var ekki til að létta minni hlutanum eða þeim sem hér stendur verkið að svonefnd samráðsnefnd um afnám gjaldeyrishafta var því miður nánast óvirk síðasta missiri og hafði ekkert af þessum málum að segja frá því fyrir páska og þar til frumvörpin komu fram. Það kallaði einfaldlega á meiri vinnu fyrir talsmenn flokkanna í þessu tilviki að setja sig inn í þau tiltölulega flóknu mál sem þarna eru á ferðinni.

Það er einnig nokkuð ljóst að málin tvö eru að einu leyti í grundvallaratriðum ólík og það er hvað skýrleika snertir. Eins og hér hefur komið fram um stöðugleikaskattsfrumvarpið er sú aðgerð klár og kvitt. Hún er afar einföld bæði í lagalegu og skattalegu tilliti. Skattandlagið er heildareignir búanna eins og þær koma til með að standa um næstu áramót. Skatthlutfallið er 39% og frá því eru síðan tilgreindir en afmarkaðir frádráttarmöguleikar, þ.e. að búunum býðst að fjárfesta í tilteknum innlendum gerningum til langs tíma og fjármagna þar með banka hér innan lands og fá að hámarki 20% frádrátt á skattinn með þeim aðferðum og þó getur frádrátturinn aldrei orðið meiri en 50 milljarðar á bú. Þetta leiðir til þeirrar niðurstöðu að skattlagningin er án nokkurs minnsta vafa ef af henni yrði gagnvart öllu búunum Íslandsmet. Það er ekki nokkur vafi á því að aldrei nokkurn tíma hefði á einu ári einn skattstofn gefið af sér 682 milljarða í Íslandssögunni ef svo færi. En þannig er að frá brúttóskattinum upp á 845 milljarða gætu mest dregist 163 og þá yrði nettóútkoman 682 milljarðar í verðmætum í ríkissjóð.

Nauðasamningaleiðin með greiðslu svonefndra stöðugleikaframlaga er hins vegar miklum mun óljósari að meta hvað fjárhæðir og fjárhagslega útkomu varðar. Þar kemur til í fyrsta lagi að stöðugleikaskilyrðin eru ekki opinber og mat á því hvaða fjármunir munu skipta þarna um hendur er þar af leiðandi nokkuð snúið, enda hefur niðurstaða flestra sem við þetta hafa glímt verið á breiðu bili. Oftast hafa verið nefndar tölur frá 300–450 milljarðar kr. sem búin mundu reiða fram og færu til ríkisins vel að merkja af þessum stöðugleikaframlögum. Það er ávísun á að mismunurinn eða afslátturinn frá skattinum, ef svo má að orði komast, gæti orðið af stærðargráðunni 250–400 milljarðar kr. Það er að minnsta kosti gróft mat þess sem hér stendur og það munar nú um minna. Það er eins og allur virðisaukaskattur ríkisins í tvö til þrjú og hálft ár, brúttóvirðisaukaskattstekjur ríkisins í þrjú og hálft ár, sem gætu verið mismunurinn á þessum tveimur niðurstöðum fjárhagslega.

Varðandi forsögu málsins er nauðsynlegt að rifja hana lítillega upp af því að ég ætla að gera grein fyrir báðum málunum að nokkru leyti. Ég byrja á því sem þarf væntanlega ekki að orðlengja um að setning fjármagnshaftanna haustið 2008 var óumflýjanleg aðgerð og það er hér rökstutt í nefndarálitinu. Gjaldeyrisforði landsins var uppurinn. Landið var algerlega einangrað fjármálalega, aðgangur að erlendum fjármálamörkuðum harðlokaður og hafði verið í tvö ár. Íslenska ríkið gat síðast gefið út með sæmilegum kjörum árið 2006 og við vorum háð erlendri aðstoð í formi gjaldeyrislána og óvissan um framhaldið var gríðarleg. Þegar það svo bættist við sem menn máttu vita að útlendir aðilar áttu óhemjueignir í krónum inni í hagkerfinu þegar bankarnir féllu vegna hinna miklu vaxtamunarviðskipta árin á undan, og það hafa menn oft kallað hina svonefndu snjóhengju, var augljóslega enginn annar kostur í stöðunni. Höftin hafa án nokkurs vafa og hvað sem hver segir átt sinn þátt í að okkur hefur tekist að skapa þó þann stöðugleika og ná þeim efnahagsbata sem hér hefur orðið. Síðan má ekki gleyma því að höftunum fylgdi að fjármagnshreyfingar innlendra aðila lokuðust og aðilar eins og lífeyrissjóðir hættu að geta fjárfest erlendis. Þegar þetta allt er skoðað saman, aflandskrónuvandinn eða snjóhengjan, gjaldeyrisójafnvægið við uppgjör fallinna fjármagnsfyrirtækja og sú staðreynd að við settum á höft sem hafa þýtt að t.d. lífeyrissjóðir hafa ekki nú um árabil getað fjárfest erlendis mátti ljóst vera að lausnin á þessum vanda, afnám haftanna, hlaut að kalla á heildstæða og vel undirbúna nálgun. Það var sú niðurstaða sem t.d. samráðsnefndin á síðasta kjörtímabili strax á árinu 2012 lagði til í bréfi til formanna allra flokka í landinu. Þá starfaði nefnilega mjög virk samráðsnefnd sem vann þarft verk og var stjórnvöldum til ráðgjafar. Hún lagði meðal annars til í einu af erindum sínum til stjórnvalda og lagði mikla áherslu á eftirfarandi: Það er algerlega augljóst mál að við þurfum eina heildstæða og vel undir lausn. Þetta er ekki bútasaumur.

Með þessi mál var síðan unnið allt frá því að höftin voru sett á. Þau voru rýmkuð strax haustið 2009. Þá voru nýjar fjárfestingar opnaðar og þeir sem kæmu með nýjar fjárfestingar inn í hagkerfið yrðu ekki undir höftunum. Þeir gætu síðan eftir atvikum selt þá fjárfestingu aftur eða dregið arð af henni með eðlilegum hætti. Þetta var auðvitað nauðsynlegt því það hefði orðið óbærilegt að lifa við höftin ef þau hefðu líka tekið til þeirra takmörkuðu nýfjárfestinga inn í hagkerfið sem hugsanlega hefðu komið en sennilega ekki ef þannig hefði verið.

Fyrsta áætlun um afnám hafta leit dagsins ljós og var samþykkt í ríkisstjórn í júlí 2009. Hún var byggð á tillögum Seðlabanka Íslands og unnin í samráði við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn þannig að menn voru nú ekkert að sóa tímanum. Menn sneru sér strax að því verkefni að annars vegar búa við höftin á meðan þess þyrfti og hins vegar að hefja undirbúning að því hvernig væri hægt að vinda ofan af þeim.

Í mars 2011 var svo samþykkt ný og mun ítarlegri áætlun um afnám hafta og það má kalla einu fullbúnu áætlunina sem síðan hefur verið til og hefur verið unnið eftir til þessa dags. Það er fyrst nú með þessum frumvörpum sem ný og stórtæk framvinda verður í málinu. En löngu fyrir þann tíma sem áætlunin um afnám hafta birtist 2011 hófust menn handa við að vinna á aflandskrónuvandanum. Það var gert með ýmsum leiðum og þar ber fyrst að nefna Avens-viðskiptin svonefndu sem voru auðvitað ekkert annað en liður í að takast á við aflandskrónuvandann. Það kom upp sú dæmalausa staða að gríðarlegar fjárhæðir í íslenskum krónum höfðu verið settar að veði í einhvers konar vafningum af blessuðum bönkunum skömmu fyrir hrun og voru þar af leiðandi þegar bankarnir féllu í höndum erlendra aðila. Fyrst og fremst var þetta unnið í samstarfi við Seðlabankann í Lúxemborg og Evrópska seðlabankann. Það tókst að „kaupa“ heim, kaupa innan gæsalappa því kjörin voru nú afar góð, gríðarlegar fjárhæðir og af því varð reyndar umtalsverður hagnaður sem ríkissjóður og lífeyrissjóðirnir deildu með sér. Þá strax byrjar aflandskrónuvandinn að minnka allumtalsvert því sú staða hverfur sem þarna var uppi, gríðarlegar fjárhæðir í krónum í höndum erlendra aðila.

Síðan hófust uppboð á kvikum aflandskrónum samhliða fjárfestingarleið þannig að mönnum bauðst að kaupa gjaldeyri á móti gjaldeyri sem aðrir komu með inn og fjárfestu í landinu. Síðan var þetta látið mætast í útboðum. Þessi viðskipti ásamt með einstökum sértækum viðskiptum Seðlabankans leiða til þess að nú hefur þessi aflandskrónuvandi meira en helmingast. Hann var líklega af stærðargráðunni 650–700 milljarðar þegar hann var allra mestur rétt um eða við hrunið og var þá yfir 40% af vergri landsframleiðslu eða reyndar eins og hún stæði í dag niður í 300 milljarða nú sem er um 15%. Þarna hefur náðst og náðist á öllu síðasta kjörtímabili gríðarlegur árangur.

Mikilsverðust var þó lagabreytingin 12. mars 2012. Hún var án vafa mikilvægasta einstaka aðgerðin sem tengdist gjaldeyrishöftunum og ekki bara þeim, á margan hátt allri efnahagslegri endurreisn Íslands frá og með setningu neyðarlaganna. Það er bara þannig og á eftir að verða á spjöldum sögunnar hversu mikilvægt það var að þáverandi ríkisstjórn og ekki síður Seðlabankinn, sem á hrós skilið þegar hann á það skilið, héldu þarna vöku sinni, skynjuðu vandann og gripu til þessara ráðstafana. Á því hefur síðan allt byggst. Á því byggist í dag að hægt er að taka á gjaldeyrisójöfnuðinum í búum bankanna með þeim hætti sem núna stendur til.

Það hefur lengi verið ljóst að mögulegt væri að fara ýmsar blandaðar leiðir í þessum efnum. Í raun er það þannig að strax frá því í byrjun og ég tala nú ekki um frá því að áætlunin birtist 2011 liggja í aðalatriðum fyrir þeir möguleikar í stöðunni sem núna er verið að færa í lög. Það er uppboð, sem hafa farið fram og leyst drjúgan hluta vandans. Það er einhvers konar skattlagningarleið, hvort sem menn kalla það útgönguskatt eða stöðugleikaskatt skiptir ekki öllu máli, það þarf ósköp einfaldlega að vinna þennan vanda niður með því að skattleggja hann inn í ríkissjóð. Það er sú leið að kröfuhafar gefi einfaldlega eftir í einhvers konar samningum eða í viðskiptum innlendar krónueignir sínar og fái þá í staðinn grænt ljós og fari út með rest. Og það er að lokum sá möguleiki sem var reifaður strax í áætluninni 2011 að binda einhvern hluta þessa fjármagns inni í hagkerfinu til langs tíma og láta tímann vinna þetta á löngu árabili.

Hvað er á dagskrá hér og nú í dag? Það er skattlagningarleið, stöðugleikaskattur. Það er nauðasamningaleið, samkomulagsleið sem felur í sér að búin afhendi nægjanlega mikil verðmæti til þess að þau verði hlutlaus gagnvart greiðslujöfnuði. Og það er bindingarleið því innbyggt í bæði stöðugleikaleiðina og stöðugleikaskattinn er að hluti stöðugleikaframlaganna sé í raun og veru binding, t.d. á erlendum gjaldeyriseignum búanna inni í hagkerfinu til langs tíma, sjö til tíu ára, og hluti af stöðugleikaskattsfrumvarpinu er að búin geta nýtt sér frádrátt frá skattinum í formi þess að fjárfesta til langs tíma. Niðurstaðan nú er því blanda af nákvæmlega sömu hlutum og voru í afnámsáætluninni árið 2011 og síðasta ríkisstjórn vann með.

Strax í kjölfar lagabreytinganna vorið 2012 hófst vinna í fjármála- og efnahagsráðuneytinu og á vegum þeirrar ríkisstjórnar að því að greina vandann og að móta frekari tillögur um lausn hans. Og það var frá byrjun gert ráð fyrir að ríkið fengi myndarlega hlutdeild t.d. í andvirði innlendu bankanna þegar búin yrðu gerð upp, að Seðlabankinn eða eignasafn Seðlabankans mundi taka til sín og vinna úr innlendum eignum búanna. Þannig yrði á þessu tekið. Samtímis var auðvitað að skýrast myndin af því hversu mikið vandinn væri tengdur uppgjörum búanna. Það gerði hún smátt og smátt. Menn eru kannski orðnir þreyttur á því að heyra það, en ég ætla samt að segja það einu sinni enn að þegar ég sem fjármálaráðherra seint á árinu 2009 eða snemma á árinu 2010 spurði helstu sérfræðinga landsins: Hvað vita menn um gjaldeyrisjöfnuðinn þegar búin verða gerð upp? þá voru svörin nú ekki sterk. Menn sögðu: Ja, ekki mikið. Tilfinningin er kannski að það sé ekki mikill ójöfnuður. Sum búin gætu verið jafnvel aðeins jákvæð og önnur kannski dálítið neikvæð en það gæti jafnast út. Enda var þetta svarthol. Þess vegna er svo barnalegt og lýsir svo mikilli vanþekkingu að tala eins og menn á árinu 2009 eða 2010 hafi ekki að öllu leyti séð þessar stærðir fyrir. Hvernig áttu menn að gera það þegar ekki var einu sinni búið að lýsa kröfum í búin, þegar gríðarleg óvissa var um verðmæti eignasafnanna og engin almennileg kortlagning hafði farið fram á þessu? Það er ekki fyrr en á árinu 2012 sem Seðlabanki Íslands, kannski að einhverju leyti með aðstoð og stuðningi Alþjóðagjaldeyrissjóðsins, fer að fá á þetta sæmilega heildstæða mynd. Ég sá alla vega fyrstu og bestu greininguna á þessu sem virkilega dró upp heildarmyndina í kynningu Seðlabankans haustið 2012 þegar Sigríður Benediktsdóttir, sérfræðingur á gjaldeyrissviði bankans, kom með sínar kynningar sem hún svo uppfærði og endurtók margsinnis á næstu missirum. Síðan hafa þessar stærðir legið fyrir í aðalatriðum, breytingarnar hafa verið í formi þess að menn hafa haldið áfram að innheimta eignir og ávaxta þær að einhverju leyti. Þannig er nú þetta.

Stöðugleikaskatturinn eins og ég segi er í sjálfu sér einfalt fyrirbæri, lagalega og skattalega. Þar er röksemdafærslan hið stóra verkefni og vandasama, þ.e. réttlætingin fyrir svona óvenjulegum skatti, að leggja brúttóskatt, hreinan einskiptis eignarskatt upp á 39% á einhver verðmæti. Það eru auðvitað ekki mjög mörg dæmi um slíkt í skattsögunni, held ég. Á þó Ísland til baka litið nokkur dæmi í fórum sínum um hressilega eignaskattlagningu, samanber 6. og 7. áratuginn og svo auðvitað hinn ágæta auðlegðarskatt sem fyrri ríkisstjórn lagði á. En hér er tekið heldur betur dýpra í árinni.

Til að gera langt mál stutt þá er það okkar niðurstaða að stöðugleikaskatturinn sé einföld og mjög hreinleg aðgerð til að leysa þann vanda hvað bú fallinna fjármálafyrirtækja varðar. Skatturinn og skatthlutfallið endurspeglar efnahagslegan veruleika sem er til staðar á Íslandi og á þeim grunni byggir hann. Þetta er réttlætanleg skattprósenta þó vissulega há sé, til að tryggt sé að ekki sé á kostnað þjóðarbúsins, almennings og lífskjara hér í landinu leyst úr þessum vanda umfram það sem efni standa til, skatturinn gengur ekki lengra en það. Þar í liggur lykillinn að skatturinn sé í samræmi við vandann, hvorki of né van. Og ef við trúum því og treystum sem ég geri að skatturinn sé réttlætanlegur, hann standist, þá eru það auðvitað mikilsverðar vísbendingar um það hver vandinn er og hvað þarf til að leysa hann.

Þegar kemur að nauðasamningaleiðinni þá hefur hún vissulega ýmsa kosti sem ég ætla ekki að gera lítið úr og þá ekki síst að málin leysist á grundvelli samkomulags og að lagalegri óvissu sé eytt eins og kostur er. Það verður alltaf að telja samkomulagi til tekna ef því er samfara að málin eru leyst í friði og ekki verður uppi lagalegur ágreiningur í framhaldinu. Þá vita menn þó hvað þeir hafa eins og ágætur lögmaður hér í bænum sagði í merkri blaðagrein fyrir nokkrum árum: Skynsamir menn semja. Sömuleiðis er minni hætta á töfum, á tafsömu ferli, þetta klárast með nauðasamningaleiðinni innan mjög knappra tímamarka. Því eru sett þannig þröng mörk að búin verða að klára sína nauðasamninga, reiða fram stöðugleikaframlögin innan tilskilinna tímamarka eða greiða skattinn ella. Það má færa þau rök fyrir stöðugleikaframlagaleiðinni, nauðasamningaleiðinni, að hún styrki málið í heild og hún gerir það. Stöðugleikaskatturinn er betur valdaður í ljósi þess að hinn valkosturinn er í boði. Það er þannig. Saman myndar þetta heild sem er sterkari heldur en hvort í sínu lagi og það verður að teljast þar af leiðandi að sjálfsögðu nauðasamningaleiðinni til tekna. Hún tryggir líka fjármögnun og ákveðna fjárbindingu sem stöðugleikaskattsleiðin gerir reyndar einnig vegna frádráttarliðanna. En hins vegar verður að segja og endurtaka að stöðugleikaskilyrðin hafa ekki verið gerð opinber. Það er verulegur vandi að ráða í það hvernig þau koma út endanlega og fjárhagslega þó að auðvitað megi lesa um tilboð lykilkröfuhafa í formi bréfa á heimasíðu fjármálaráðuneytisins. Þetta er vissulega ágalli. Þótt ákveðin rök kunni að standa fyrir því að birta ekki stöðugleikaskilyrðin opinberlega þá er það ágalli á málinu að ekki skuli liggja fyrir meiri upplýsingar um þessa mikilvægu þætti og meira gagnsæi sé um aðgerðir. Það er ekki hægt að neita því.

Ef við berum svo örstutt saman þessar leiðir eins og reyna má að gera þá verður fyrst að nefna þann undarlega atburð sem verður í Hörpu hér á dögunum þegar gríðarlega fín og kostnaðarsöm kynning fer fram en varla minnst einu orði á nauðasamninga- og stöðugleikaframlagaleiðina sem allt stefnir í að verði farin. Það varð ljóst strax þennan kynningardag því þá kom fram að viðræður við lykilkröfuhafa voru það þroskaðar orðnar að þeir reiddu fram tilboð sitt um stöðugleikaframlög tölusett, á ensku að vísu í byrjun, og meira en það. Verkefnisstjórnin hafði komið saman, farið yfir þessi tilboð og metið þau fullnægjandi. Og hvað þýðir það á mannamáli? Það þýðir auðvitað að málið var mjög langt komið. Það kann að vera rétt að það hafi gerst hratt þarna þessa daga á undan að einhverju leyti en svona stóð það daginn sem skrautsýningin var í Hörpunni þar sem verið var að reyna að selja þjóðinni þá mynd af þessum málum að þetta væri bara stöðugleikaskattur og menn töluðu um þær tölur og þær fjárhæðir í ríkissjóð og sumir lögðu svo af stað og fóru að eyða þeim. En þannig er málið ekki vaxið. Þetta var auðvitað mjög undarlegt.

Þetta og sú staðreynd að kröfuhafar stóru búanna meta það augljóslega sem mun hagstæðari kost að uppfylla stöðugleikaskilyrðin en að lenda í að greiða skattinn segir okkur auðvitað ákveðna sögu, í því eru fólgin ákveðin skilaboð. Sterkustu skilaboðin að mínu mati í samanburði þessara leiða eru fólgin í því að það af búum gömlu bankanna sem er langstærst í innlendum eignum velur að reiða fram stöðugleikaframlög frekar en að greiða skattinn. Það á langmestu innlendu eignirnar, verður þar af leiðandi að reiða fram langhæstu stöðugleikaframlögin en það vill samt frekar gera það en borga skattinn. Það segir kannski sína sögu um það hvað stöðugleikaframlögin eru létt á hinum búunum, ef má svo að orði komast, en báðar þessar leiðir hafa sína kosti og galla. Fjárhæðirnar eða stærðargráðan á því hvað ríkið endar uppi með minni fjármuni eins og ég hef áður sagt gæti verið á bilinu 250–400 milljarðar en það er langt frá því það eina sem skiptir máli og það á alls ekki að bera þessar leiðir saman á bara þeim grunni vegna þess að auðvitað skiptir ekki síður máli og kannski enn síður máli hvor leiðin er betur til þess fallin að leysa vandamálið og gera það með sem traustustum hætti. Og það er margt fleira sem þarf að meta og getur haft þjóðhagslegt vægi eins og binding fjár, trygging á fjármögnun bankanna, að fá óskuldsetta fjármuni í gjaldeyrisforðann og þar fram eftir götunum. En ef við reynum að draga þennan samanburð saman þá má segja að óvissan um fjárhagslega niðurstöðu sé öll eða nánast öll á nauðasamningaleiðarhliðina. Þar liggur óvissan því hitt er tiltölulega klárt og kvitt. Munurinn getur numið hundruðum milljarða kr. og áhættan eða efinn samfara nauðasamningaleiðinni er ekki bara spurningin um það fjárhagslega heldur líka: Eru stöðugleikaframlögin, eins og samkomulag virðist hafa þroskast nokkurn veginn um að þau verði, nóg? Erum við alveg viss um að þau dugi til að hlutleysa þetta vandamál að fullu og hægt sé að fara í aðgerðina þannig að markmiðunum sé náð, markmiðum um að losun haftanna, uppgjör gömlu búanna, valdi ekki frekari gengis- eða efnahagsóstöðugleika á Íslandi og ekki verði um frekari fórnir að ræða gagnvart lífskjörum í landinu en orðið er vegna falls bankanna og er nú víst nóg komið?

Mikið hefur auðvitað verið rætt um ráðstöfun fjármunanna og þar vil ég segja að mjög ánægjuleg samstaða var í efnahags- og viðskiptanefnd um að ganga þar mjög ábyrgt fram. Þess sér stað í því sem hnykkt er á í nefndarálitum meiri hlutans og nefndaráliti allrar nefndarinnar um stöðugleikaskattinn og ég vísa til þess. Ég fagna þeirri breytingartillögu sem niðurstaðan var að gera að lokum að til viðbótar samráði við Seðlabankann og ráðgjöf frá Seðlabankanum þá skal hafa samráð við efnahags- og viðskiptanefnd áður en menn koma með tillögur til Alþingis um ráðstöfun einhvers þessa fjár. Ég tek þó fram að ég lít svo á að það sé fullt samkomulag um að greiða niður bréfið milli ríkisins og Seðlabankans og í sjálfu sér þurfi fjármálaráðherra ekki að leita til okkar með það vegna þess að það er lagt upp hér í forsendunum og það eru allir því sammála. En allt umfram það mundi ég flokka sem ráðstöfun fjármuna þar sem þetta ætti að eiga við. Það er mjög mikilvægt.

Þessi þverpólitíska samstaða er mikilvæg vegna þess að nú mun reyna á íslenska stjórnmálamenn. Nú mun reyna á það hvort menn standast freistnivandann að fara ekki að lofa eða gera út á fjármuni sem þarna kunna að haugast upp á lokaðan reikning í Seðlabankanum vegna þess að það verður að hafa í huga hvers eðlis þessir fjármunir eru og hvaðan þeir eru komnir. Þetta er það sem við sitjum uppi með vegna hinna gífurlegu vaxtamunarviðskipta þegar menn gerðu ekkert gagnvart því að hér streymdu hundruð milljarða inn í hagkerfið og gjaldeyri var skipt yfir í krónur og hann er svo læstur hér inni. Þetta er í reynd leifarnar af hinum útblásnu efnahagsreikningum gömlu bankanna sem fjármögnuðu sig fyrst og fremst erlendis en voru auðvitað innlendar viðskiptabankastofnanir, innlendir lögaðilar, og eiga þar af leiðandi talsverðar eignir hér innan lands þótt miklar kröfur standi á þá erlendis frá. En það er ákaflega mikilvægt að þessi samstaða tókst og vonandi verður hún til þess að pólitískir loddarar komast síður upp með það t.d. í aðdraganda næstu kosninga að gera út á það að nú ætli þeir að vera örlátir og rausnarlegir og ausa af þessum sjóðum á báða bóga. Hagkerfið þolir það ekki og það er nú ekki eins og þetta séu gullstangir. Þetta eru krónur. Þetta er innlendur lögeyrir í hagkerfi sem er að verða svolítið þanið af því að slakinn er horfinn, þökk sé góðum efnahagsbata á Íslandi frá því á síðari hluta árs 2010. Þetta er hagkerfi þar sem á bóluárunum þrefaldaðist peningamagn í umferð og við sitjum uppi með þann vanda enn í þeim skilningi að það er allt of mikið af þessum fjármunum, of mikið peningamagn. Sem betur fer hefur stór hluti þess ekki verið í umferð og um það snýst þetta mál, að fjármagn sem hefur verið lokað og ekki í umferð í innstæðum á reikningum gömlu bankanna fari ekki þaðan og í umferð í hagkerfinu og kveiki í því.

Niðurstaðan minni hlutans er að mæla með því að styðja þetta frumvarp en þó með mun meiri fyrirvörum ef svo má að orði komast um stöðugleikaskattinn. Ég tel mig hafa gert grein fyrir þeim hér í mínu máli og það snýr meðal annars og ekki síst að því að við höfum ekki stöðugleikaskilyrðin opinber og við vitum ekki nákvæmlega út á hvað „samningar“ eða óformlegt samkomulag ríkisstjórnarinnar og lykilkröfuhafa fól í sér. Á því verður auðvitað (Forseti hringir.) ríkisstjórn Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar, hæstv. forsætisráðherra, að bera alla ábyrgð. Þess vegna væri mjög gagnlegt að hafa oddvita ríkisstjórnarinnar hérna í salnum (Forseti hringir.) og geta spurt hann út í það: Er óformlegt samkomulag komið á við kröfuhafana um þessa stöðugleikaskilyrðaleið?