145. löggjafarþing — 145. fundur,  5. sept. 2016.

þunn eiginfjármögnun og skattasamningar við álverin.

[15:07]
Horfa

Oddný G. Harðardóttir (Sf):

Herra forseti. Ég nefndi hvergi upphæð vaxtagreiðslna eða neitt í þá veru sem hæstv. ráðherra talaði um hér. Ég var einungis að benda á að ef setja ætti lög um þunna eiginfjármögnun mundi það ekki ná yfir álfyrirtækin í landinu vegna fjárfestingarsamninganna. Ég spurði hæstv. ráðherra um þá klemmu sem við værum þá í ef við vildum það, mér skildist á fréttum Ríkisútvarpsins um helgina að hæstv. ráðherra teldi að væri hægt að gera það. Mínar upplýsingar segja að svo sé ekki.

Ég held reyndar að það sé svo að aðeins löggjöf og samningar við álfyrirtækin — ef við ætluðum að reyna að ná einhverjum skatti af álfyrirtækjunum væri það orkuskattur, en við getum ekki farið í þunna eiginfjármögnun nema taka upp fjárfestingarsamningana. Það er sá vandi sem ég vildi (Forseti hringir.) ræða við hæstv. fjármálaráðherra af því að það er augljóst vandamál sem taka þarf á. Þá er spurningin: Hver er samingsstaða okkar ef við viljum fara inn í fjárfestingarsamningana?