138. löggjafarþing — 146. fundur,  16. júní 2010.

vatnalög.

675. mál
[17:51]
Horfa

Birgitta Jónsdóttir (Hr):

Frú forseti. Ég styð það að fresturinn verði lengdur til að lögin taki ekki gildi frá 2006, aftur á móti er ég ósátt við að þau hafi ekki hreinlega verið látin falla úr gildi af því að þetta vekur óvissu hjá þjóðinni. Það hefur rignt yfir okkur fleiri hundruð tölvupóstum þar sem ríkir mikil óvissa meðal almennings. Satt best að segja hefur maður fundið að fólk treysti því ekki að Sjálfstæðisflokkurinn tæki ekki upp á því ef hann kæmist til valda að fara að einkavæða vatnið okkar þannig að mér finnst mjög mikilvægt að við — (Gripið fram í: Hvaða, hvaða …) Þetta er það sem hefur komið fram, hv. þingmenn, í tölvupóstum. (Gripið fram í: Popúlismi.) Þetta er enginn popúlismi, þetta er það sem — (Gripið fram í.) Gæti ég fengið hljóð hér? (Gripið fram í: Fyrirsláttur.)

(Forseti (ÁRJ): Gefið hv. þingmanni hljóð hér í ræðustól Alþingis.)

Þetta er það sem hefur komið fram hjá almenningi sem hefur verið í sambandi við mig í fleiri hundruð tölvupóstum. Ég vil taka það fram að mér finnst óþarfi að ala á óvissu hér á slíkum tímum sem við búum við núna. (Forseti hringir.) Því hefði mér fundist eðlilegt að þetta hefði verið fellt úr gildi.