139. löggjafarþing — 146. fundur,  9. júní 2011.

stofnun hlutafélaga um vegaframkvæmdir.

789. mál
[11:20]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég held að ekki verði hægt að draga dul á það út af gjaldtökunni sem var rætt um vegna stofnæðanna á suðvesturhorninu að hún hefði haft í för með sér gríðarlegan viðbótarkostnað og aukaálag á íbúana suðvestanlands sem meðal annars kemur fram í áliti fjárlagaskrifstofunnar um sjávarútvegsmálin. Meginþunginn er hér í gjöldum varðandi vegamál. Ég tek hins vegar undir með hv. þingmanni, við megum ekki tala um að þetta verkefni fari illa. Við vonumst öll til þess og eigum öll að stuðla að því að þetta verkefni gangi vel. Samgöngubætur, hvort sem eru vestan, norðan, sunnan eða austan heiða, skipta máli fyrir allt landið og allt samfélagið. Við verðum engu að síður að vera meðvituð um það hvaða ábyrgðir kunna að falla og hvernig verkefninu vindur fram um leið og við reynum að fara inn í verkefnið með bjartsýni og von í brjósti um bættan hag.

Spurningin sem er eftir sem ég (Forseti hringir.) beindi til hv. þingmanns er: Hvaða sjónarmið voru uppi af hálfu þeirra þingmanna sem höfðu efasemdir í (Forseti hringir.) samgöngunefnd um þetta mál?