139. löggjafarþing — 146. fundur,  9. júní 2011.

stofnun hlutafélaga um vegaframkvæmdir.

789. mál
[11:54]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég held að ágætt hafi verið að hlusta einmitt á ræðu hv. þm. Kristjáns Þórs Júlíussonar, líka þegar hann dró fram Norðfjarðargöngin. Ég held að það hafi verið eðlilegar og skiljanlegar áhyggjur sem Austfirðingar sýndu þegar Vaðlaheiðargöngin voru sett fram með svona afgerandi hætti á dagskrá. Þess vegna fannst mér mikilvægt og eðlilegt að þingmaðurinn hafi dregið fram þann mikla vilja kjördæmaþingmannanna fyrir Norðausturkjördæmi að setja Norðfjarðargöngin í þessa skýru forgangsröð sem mér fannst þingmaðurinn draga réttilega fram. Ég held að það verði líka að tala til þess landshluta.

Ég vil spyrja hv. þingmann: Af hverju telur hv. þingmaður að formaður samgöngunefndar flytji þetta mál? Af hverju flutti ekki hæstv. innanríkisráðherra þetta mál? Getur verið að hann sé á móti þessu hlutafélagi um Vaðlaheiðargöng, kann það að vera? Getur hv. þingmaður gefið mér þær útskýringar af hverju ráðherrann, sem alla jafna flytur ekki breytingartillögu við mál, sem reyndar ráðherrann sat hjá líka, sem er forvitnilegt í ljósi heildarmyndarinnar, flutti ekki þessa breytingartillögu?

Í öðru lagi langar mig líka í ljósi forvitnilegra orða hv. þingmanns um forsögu málsins sem má rekja alveg aftur til 1998 og oft hefur verið talað um að allir vildu Lilju kveðið hafa o.s.frv. Er það þannig að margir hafi múnderað sig upp og ætlað að taka fyrstu skóflustungu, kannski rétt fyrir kosningar?