139. löggjafarþing — 146. fundur,  9. júní 2011.

stofnun hlutafélaga um vegaframkvæmdir.

789. mál
[11:56]
Horfa

Kristján Þór Júlíusson (S) (andsvar):

Forseti. Nú ískrar töluvert í sumum hv. þingmönnum, ekki þar fyrir að skóflublaðið sé orðið svona ryðgað og lúið, heldur miklu fremur að ég held að suma hv. þingmenn langi mjög til að vera viðstaddir fyrstu skóflustunguna að þessu verki eins og svo mörgum öðrum. (Gripið fram í: Bjóddu þeim norður.) Ég held að ég geti fullyrt að sumir hafi verið í startholunum tvisvar, þrisvar fyrir það verk sem spurt er eftir. En að öðrum skemmtilegri málum.

Um afstöðu hæstv. innanríkisráðherra til þessa verkefnis vill nú svo einkennileg til að þegar lögin um þetta voru afgreidd sat hann hjá. Ekki man ég þannig að ég geti vitnað til þess af hvaða ástæðum það var. En ef við lítum til afstöðu hæstv. innanríkisráðherra til þess fyrirbæris sem kallað er einkaframkvæmd getum við í rauninni dregið ályktanir af afstöðu hans í þeim málum og lagt hana við þá niðurstöðu sem var í atkvæðagreiðslunni. Hann treysti sér ekki til að fara þessa leið.

Þess vegna verður mjög forvitnilegt að sjá afstöðu hæstv. innanríkisráðherra og raunar fleiri þingmanna Vinstri grænna til þess verkefnis sem kemur væntanlega inn í haust og er einhver stærsta einkaframkvæmd Íslandssögunnar sem er bygging Landspítala – háskólasjúkrahúss þegar hún verður borin uppi. Hún er að vísu kölluð í gögnum Alþingis „samstarfsframkvæmd“ en er í rauninni alveg dæmigerð einkaframkvæmd ef farið væri til hennar með réttum hætti. En það eru átök um það mál, skiljanlega, en byggja miklu fremur finnst mér á prinsippum sem eiga ekki við og eru frekar svona horngrýtispólitík en alvara.