139. löggjafarþing — 146. fundur,  9. júní 2011.

stofnun hlutafélaga um vegaframkvæmdir.

789. mál
[12:25]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (S) (andsvar):

Frú forseti. Já, ég held að þetta hafi skýrt ansi margt. Ég held að hv. þm. Kristján Möller hafi frekar liðkað fyrir umræðunni öfugt við það sem hv. þingmaður og formaður samgöngunefndar gerði hér áðan. Ég er fegin að heyra að þessi heimild á við um bæði félögin. Þetta voru þá réttmætar athugasemdir og pælingar af hálfu hv. þm. Ásbjörns Óttarssonar þegar hann fór yfir þetta mál hér áðan. Mér fannst það ekki koma skýrt fram í svari hv. þm. Björns Vals Gíslasonar hvað um var að ræða. Þannig að ég held að þetta sé mikilvægt.

Engu að síður er það óheppilegt að þessi heimild skuli hafa verið sett inn eftir að samningaferlið er hafið. Mér finnst það óheppilegt í þeirri mynd sem blasir við. Það kann að vera að þetta virki sem ákveðinn þrýstingur á þá eigendur landsins sem um ræðir og það er ávallt vont þegar leikreglum er breytt eftir á, en menn máttu svo sem gera ráð fyrir því að ákveðin lögjöfnun væri við þau lög sem gilda um Vegagerðina í þessum málum. Ég held því að þetta sé ekkert óeðlilegt þó að þetta sé óheppilegt.

Varðandi umferðarmagnið sem tengist Vaðlaheiðargöngunum þá hafa verið settar fram ákveðnar efasemdir um að þær forsendur standist. Ég ætla ekki að fara út í miklar deilur hvað það varðar. Ég ítreka hins vegar að ég held að mun meiri líkur séu á að þetta verkefni standi undir sér ef framkvæmdir á norðausturhorninu fara af stað. Við verðum að setja þrýsting á það. Það þýðir ekki fyrir ráðherra í ríkisstjórninni að koma með hástemmdar yfirlýsingar á nokkurra daga fresti og síðan gerist ekki neitt í þessum málum. Þar liggja mínar áhyggjur. Ég er hrædd um að ákveðin deyfð færist yfir þennan hluta landsins og það mun hafa samfélagsleg áhrif á landið allt ef ekki verður farið í þessar framkvæmdir. Slíkar ákvarðanir, þ.e. að gera ekki neitt, eins og (Forseti hringir.) manni finnst stundum að ríkisstjórnin ætli sér fyrir norðan, (Forseti hringir.) munu hafa áhrif á (Forseti hringir.) hagkvæmni og arðbærni þessarar samgönguframkvæmdar.