139. löggjafarþing — 146. fundur,  9. júní 2011.

stofnun hlutafélaga um vegaframkvæmdir.

789. mál
[12:41]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (S) (andsvar):

Frú forseti. Við erum algjörlega sammála um það. Við viljum vita hvernig þetta er borgað og við viljum að menn fari varlega með fjármuni ríkisins. En menn vilja líka framkvæmdir. Og ákveðið fjármagn er eyrnamerkt til nýframkvæmda í samgöngum. Ef hæstv. ráðherra hefði verið hér hefði hann líka hlustað á mig segja — hann hefur reyndar sagt að hann missi ekki mikinn svefn yfir því — að hlutfall nýframkvæmda á suðvesturhorninu 2008, 2009 og 2010, og ef fram heldur sem horfið verður þetta svipað, er innan við 10%. Hlutfallið til nýframkvæmda á suðvesturhorninu hefur reyndar aldrei farið yfir 20%.

Þess vegna spyr ég: Er ekki kominn tími til þess að við reynum að ýta framkvæmdunum af stað ekki síður hér á suðvesturhorninu alveg eins og annars staðar á landinu? Hér eru þarfirnar með ákveðnum hætti. Þær eru öðruvísi en annars staðar, en þeim verður að mæta. Það er hæstv. ráðherra ekki að gera.