139. löggjafarþing — 146. fundur,  9. júní 2011.

stofnun hlutafélaga um vegaframkvæmdir.

789. mál
[12:03]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (S):

Frú forseti. Við ræðum áfram breytingartillögu frá hv. samgöngunefnd sem fjallar um breytingar á lögum sem samþykktar voru á síðastliðnu þingi í júní árið 2010 og tengjast stofnun hlutafélags um vegaframkvæmdir.

Það sem vekur fyrst athygli er að það skuli vera samgöngunefnd þingsins sem flytur þetta mál. Ég hef 20 mínútur til umráða og mun m.a. fjalla um samgönguframkvæmdir á suðvesturhorninu af því að þetta mál tengist samgöngumálum og hefur tekið miklum breytingum. Sú þróun átti í rauninni að vera í samgöngumálum en hefur ekki orðið frá því að upphaflega málið var samþykkt þar til nú að við stöndum frammi fyrir þessari breytingartillögu.

Ég vil óska eftir því að hæstv. innanríkisráðherra verði viðstaddur umræðuna til að bregðast við ákveðnum spurningum sem ég vil beina til hans.

Ég vonast til þess að fá svör við því frá hæstv. forseta hvort hæstv. ráðherra muni koma hingað í hús til þess að fara yfir ákveðin mál sem tengjast samgönguframkvæmdum.

Af hverju var hæstv. innanríkisráðherra ekki flutningsmaður þessa máls? Af hverju kom hann ekki með þá breytingartillögu sem lá nokkuð ljóst fyrir að þyrfti að fara af stað með til að ekki væru einhverjar efasemdir um lögmæti þeirrar kröfugerðar að menn krefðust þess að taka land eignarnámi? Getur það verið vegna þess að hæstv. innanríkisráðherra hefur verið andsnúinn því fyrirkomulagi? Þá er merkilegt að ráðherrann sjálfur sem var flutningsmaður þessa máls skuli ekki einu sinni hafa greitt því atkvæði. Hann sat hjá fyrir tæpu ári síðan þegar þetta mál kom til atkvæða. Ég tengi það líka, og fer inn á það síðar, af hverju það hefur verið svona mikill silagangur í brýnum samgönguframkvæmdum á suðvesturhorninu.

Ég sakna þess reyndar líka að hv. þm. Björn Valur Gíslason, formaður samgöngunefndar, sem innti mig eftir skoðun minni á frumvarpinu, skuli ekki vera staddur hér. Ég undirstrika að ég skil þessa breytingu í ljósi þeirra laga sem liggja fyrir. Ég skil líka þau sjónarmið sem hv. þm. Ásbjörn Óttarsson bar fram, að það hefði allt eins átt að ræða það að setja slíka heimild inn í lög sem tengjast félaginu um samgönguframkvæmdir á suðvesturhorninu. Ef það eru efasemdir um eignarnámsheimild varðandi Vaðlaheiðargöngin og norðansvæðið þá er alveg sami efinn til staðar varðandi suðursvæðið.

Það er skiljanlegt að þessi leið sé farin. Engu að síður hefur komið í ljós að það voru skiptar skoðanir innan samgöngunefndar og meðal þingmanna, ekki síst innan stjórnarliðsins, innan Samfylkingarinnar, varðandi þetta mál. Ég vil undirstrika það sem ég hef sagt áður að það skiptir miklu máli fyrir samfélagið að horfa á samgönguframkvæmdir í heild sinni. Menn sem búa á suðvesturhorninu verða að skilja að það þarf hlutfallslega aukið fjármagn til samgönguframkvæmda á landsbyggðinni. Þannig er það. En talsmenn landsbyggðarinnar verða líka að skilja að þarfir þeirra sem búa á suðvesturhorninu eru með öðrum hætti en landsbyggðarinnar. Það eru dýrari framkvæmdir sem þarf að fara í á suðvesturhorninu til þess að geta annað allri þeirri miklu og þungu umferð sem hér er.

Ég óska eftir því að menn hætti að tala um þetta mál eins og menn hafa talað um sjávarútvegsmálið, að það sé bara landsbyggðarmál. Ég mótmæli því harðlega. Sjávarútvegurinn er grunnatvinnuvegur þjóðarinnar og við sem búum á suðvesturhorninu eigum að hafa skoðun á því hvernig kerfinu er breytt. Ég ætla ekki að fara út í mikla umræðu í sjávarútvegsmálum, en við eigum að hafa skoðun á breytingum eins og á þeirri makalausu breytingu sem ríkisstjórnin sem hefur ekki fengist til að ræða, hvorki forsætisráðherra né fjármálaráðherra, varðandi þennan grunnatvinnuveg, hvort sem við búum á suðvesturhorninu eða annars staðar á landinu. Það sama gildir að sjálfsögðu um samgönguframkvæmdir.

Ég ætla að leyfa mér að hafa þá skoðun og ég tel að það sé með fullum rétti hægt að segja að Vaðlaheiðargöng séu mikilvæg og mikil búbót fyrir norðanmenn. Það má líka draga fram þær spurningar hvort við höfum efni á því að fara í slíkar framkvæmdir akkúrat núna. Ég held þess vegna að sú leið sem farin hefur verið hafi verið gerð m.a. til þess að koma til móts við þarfir ekki bara norðanmanna heldur okkar allra til að efla samgöngur, gera þær arðbærari, gera þær hagkvæmari með tilliti til eldsneytisnotkunar og fleira, en líka til þess að fara af stað með framkvæmdir almennt.

Ég spyr mig að því núna þegar niðurstaðan liggur fyrir varðandi Vaðlaheiðina: Hvað líður framkvæmdum á suðvesturhorninu? Ég sat einn fund með innanríkisráðherra og fulltrúum sveitarfélaga á suðvesturhorninu, þ.e. sveitarfélögum suður með sjó, frá Hveragerði, Selfossi og síðan vestur yfir, um hvernig við ætlum að leysa vegamál á suðvesturhorninu. Enn og aftur er málið í nefnd. Menn ætla bara að hlusta. Ráðherrann ætlar að hlusta. Hvergerðingar og aðrir Sunnlendingar komu með mjög áhugaverðar og raunhæfar tillögur um að hefja a.m.k. framkvæmdir. Það er hægt að deila um það og skiptast á skoðunum um hvort við höfum efni á því að fara í tvöföldun eða ekki, hvort við eigum að fara í 2+1 og allt það, en það er hægt að fara í ýmsar breytingar nú þegar til þess að lagfæra veginn. Það kom skýrt fram á fundinum. Af hverju er það ekki gert? Getur það verið út af því að innanríkisráðherra greiddi ekki atkvæði með því fyrirkomulagi sem samþykkt var fyrir ári síðan í þinginu? Getur verið að hann sé á móti því að þessi leið einkaframkvæmdar sé vörðuð? Getur verið að andstaða innanríkisráðherra standi í vegi fyrir framkvæmdum á suðvesturhorninu?

Í tengslum við kjarasamninga var ákveðið — að mig minnir, ég vonast þá til að þingmenn í salnum leiðrétti mig — að hópur sem tengist kjarasamningunum og kjarasamningagerð mundi að hittast til að ræða framkvæmdir í samgöngumálum. Hefur sá hópur hist? Hefur verið reynt að ýta á framkvæmdir? Tæplega sex og hálfur milljarður var eyrnamerktur í framkvæmdir. Af hverju er ekki farið í framkvæmdir? Á meðan eru 16.000 Íslendingar atvinnulausir. Ég ætla ekki að ræða alla þá sem flust hafa úr landi á þessu tímabili athafnaleysis og aðgerðaleysis af hálfu ríkisstjórnarinnar. Við þurfum að vaxa út úr vandanum. Við þurfum að reyna að skapa, framleiða og efla grunnstoðirnar og þar undir er m.a. vegakerfið.

Ég vil líka draga fram í tengslum við þetta mál og þennan sex og hálfan milljarð að á árunum 2008, 2009 og 2010 fékk ég þær upplýsingar frá Vegagerðinni að 9,8% af því færu til nýframkvæmda á suðvesturhorninu — 9,8%. Ég er ekki að tala um að fara sömu leið og ríkisstjórnin og stjórnarmeirihlutinn og segja að hluti þess kostnaðar sem falli til á því svæði eigi að fá gjaldið til baka. Meiri hlutinn af því gjaldi sem fæst af bifreiðum og bifreiðagjöldum kemur frá suðvesturhorninu. Ég bið um að menn hugsi um þessi 9,8% sem fara til nýframkvæmda á suðvesturhorninu. Það hefur aldrei farið yfir 20%. Svo situr innanríkisráðherra og gerir ekki neitt og getur ekki einu sinni hugsað sér að flytja frumvarp um breytingu á lögunum af því að hann er ekki sammála aðferðafræðinni.

Okkur sárvantar framkvæmdir í samfélaginu. Það er búið að gera ráð fyrir ákveðnum framkvæmdum. Af hverju er ekki farið af stað? Við á suðvesturhorninu erum margoft búin að sýna fram á og lýsa því yfir að það eru ákveðnar framkvæmdir sem hægt er að fara í og hafa legið fyrir lengi, hafa verið á samgönguáætlun í áraraðir og búið er að hanna og undirbúa ýmsar vegaframkvæmdir sem tengjast gatnamótum á Reykjavíkurveginum. Það er hægt að tala um af hverju t.d. Kjósarskarðsvegurinn hefur ekki fengið brautargengi en hefur samt verið á áætlun. Álftanesvegurinn hefur lengi verið á áætlun en framkvæmdum er alltaf seinkað og svo mætti lengi telja.

Um leið og ég sýni því skilning að menn vilji fara í Vaðlaheiðargöng vil ég líka að menn hugsi um það sem er að gerast hér suðvestanlands. Það er bara akkúrat ekki neitt að gerast í framkvæmdum suðvestanlands. Það er eins ráðherrann búi ekki einu sinni á þessu svæði og skynji ekki vandann sem er á þessu svæði, enda sagði hann að hann missti ekki svefn yfir því hvað færi í nýframkvæmdir á suðvesturhorninu. Það fara innan við 10% í nýframkvæmdir á suðvesturhorninu.

Ég kom inn á það í andsvari áðan við hv. þm. Kristján Þór Júlíusson að um leið og ég sýni þessu verkefni skilning eru efasemdir mínar gagnvart verkefninu fólgnar í því að ég er hrædd um að framkvæmdum á Bakka seinki þrátt fyrir digurbarkalegar yfirlýsingar hæstv. iðnaðarráðherra um að það eigi að fara af stað í ýmsar framkvæmdir fyrir norðan. Okkur miðar ekkert áfram. Ég velti fyrir mér: Eru þeir arðsemisútreikningar sem liggja til grundvallar Vaðlaheiðargöngunum byggðir á því að framkvæmdir fari af stað? Ég er sannfærð um að arðsemi Vaðlaheiðarganga muni ekki bara verða þokkaleg heldur góð ef framkvæmdir fara af stað á norðvestursvæðinu. Menn verða að drífa sig. Ég veit satt best að segja ekki hver staðan er á þeim framkvæmdum öllum, bara að það eru einhverjir góðir samningar á leiðinni, gott veður á leiðinni. Ég er búin að heyra það allt svo vikum skiptir frá ríkisstjórninni. Er ekki hægt að biðja um að fólk tali skýrt?

Við þurfum að fara í framkvæmdir, ekki bara samgönguframkvæmdir, við þurfum að fara af stað í margháttaðar framkvæmdir. Við þurfum að gæta að því að við rústum ekki grunnatvinnuvegum þjóðarinnar víða um land. Þá fyrst gæti arðbærni samgönguframkvæmda farið niður á við ef menn ætla að fara þær leiðir sem ríkisstjórnin boðar á sviði sjávarútvegsmála.

Ég sakna þess í tengslum við umræðu um Vaðlaheiðargöngin að ríkisstjórnin segi fullum hálsi: Jú, við erum á fullu og það er að gerast núna, ekki bara einhvern tímann á næsta ári eða þarnæsta ári, og gefa sífellt loforð til okkar allra um að eitthvað raunhæft verði gert. Ég er ekkert að tala um það. Ég er þingmaður suðvesturhornsins. Ég er þingmaður Suðvesturkjördæmis. En fyrir samfélagið í heild er mikilvægt að samgöngur fari af stað — þær eru reyndar byrjaðar í Helguvík þótt ríkisstjórnin neiti að horfast í augu við það — en ríkisstjórnin þvælist fyrir í því máli sem öðrum, m.a. í því verkefni sem hægt væri að fara af stað með fyrir norðan. Það er ekki hægt að setja þessar byrðar eingöngu á þá sem búa í Norðurþingi eða á Norðurlandi og segja: Þetta er þeirra mál. Þetta er nefnilega mitt mál líka. Við fáum aukinn hagvöxt í gegnum þessar framkvæmdir.

Hvernig ætla menn að uppfylla þau skilyrði sem sett hafa verið í kjarasamningnum um 4% hagvöxt ef menn ætla ekki að gera neitt annað en að tala frá okkur erlenda fjárfestingu? Hótanir um þjóðnýtingu? Ef við hefðum ekki sjávarútveginn, ef við hefðum ekki áliðnaðinn, þá fyrst væri hægt að tala um þjóðargjaldþrot. Það eru grunnundirstöðuatvinnuvegirnir í dag ásamt ferðaþjónustunni sem halda okkur á floti. Sem betur fer eru bjartir tímar fram undan í ferðaþjónustunni, sem er náttúrlega þýðingarmikið fyrir okkur öll.

Ég set stórtækar samgönguframkvæmdir í það samhengi að við verðum að sjá hvaða umhverfi er verið að skapa og byggja upp í kringum samgönguframkvæmdir. Ég óska svara við því.

Ég vil líka gjarnan fá að vita hvaða svör hæstv. innanríkisráðherra hefur varðandi fyrirspurn mína um að mæta í þingið.

(Forseti (ÁI): Hæstv. innanríkisráðherra hefur verið gert viðvart um ósk þingmannsins og hefur hann sagst munu reyna að verða við henni svo fljótt sem auðið er.)

Ég vil þakka skjót og góð svör, hæstv. forseti, við spurningu minni þannig að það er ljóst að ef hann verður ekki mættur áður en ég lýk þessari ræðu minni óska ég eftir að verða sett á mælendaskrá að nýju til að spyrja hæstv. ráðherra ákveðinna spurninga sem ekki er hægt að líta fram hjá í tengslum við þetta mál.

Auðvitað voru það réttmætar spurningar sem hv. þm. Ásbjörn Óttarsson setti fram í máli sínu áðan: Af hverju var þetta ekki sett fram í upprunalega frumvarpinu þar sem hæstv. innanríkisráðherra var framsögumaður en gat síðan ekki stutt það? Mönnum kann að yfirsjást, það gerist og hefur gerst á bestu bæjum. En mér er enn spurn af hverju hann var þá ekki flutningsmaður þessarar breytingar.

Ég held að ef menn ætla ekki að ræða framkvæmdir á Norðurlandi í tengslum við Vaðlaheiðargöngin verði líklegra en hitt að ríkissjóður þurfi að standa frammi fyrir því að taka yfir allt félagið þegar upp er staðið, en hann á meiri hlutann í þessu félagi, því að arðbærni framkvæmdanna mun ráðast af því hvað gert verður í atvinnumálum á Norðurlandi. Það er bein tenging þar á milli.

Ég hefði gjarnan viljað fá upplýst og hef ekki enn þá fengið svör af hálfu stjórnarþingmanna — ég held að hv. þm. Kristján Möller ætli að koma í andsvar við mig á eftir — og ekki heldur af hálfu formanns samgöngunefndar hvernig umræðan var innan hv. samgöngunefndar.

Hv. þm. Ásbjörn Óttarsson dró það fram, og það var athyglisvert, að ákveðnir stjórnarþingmenn báðu um breytingu á dagskrá samgöngunefndar augljóslega til þess að fara út úr herberginu þegar málið yrði afgreitt svo það yrði ekki sýnilegt að ekki væri sátt um það á meðal stjórnarliða. Ég vil gjarnan fá það upplýst. Það getur vel verið að þessir hv. þingmenn hafi haft réttmæt sjónarmið og góðar ábendingar í huga í því sambandi en ég vil gjarnan fá það upplýst. Ef það verður ekki upplýst óska ég eftir því að málið fari aftur til samgöngunefndar á milli umræðna, ég held að það sé alveg ljóst.

Um leið og ég styð þetta verkefni vil ég líka fá allt upplýst í tengslum við það. Það er réttmæt krafa okkar og það er í takt við þá nýju tíma sem við höfum öll talað svo fjálglega um varðandi vinnubrögð á þingi, að við eigum að vita nákvæmlega um hvað málin snúast.

Að öðru leyti ætla ég ekki að fara frekar yfir málið en ég styð þessa breytingu sem gaf tilefni til umræðna um aðrar samgönguframkvæmdir, enda kemur það í rauninni fram í nefndarálitinu. Þar segir m.a., með leyfi forseta:

„Er það mat nefndarinnar að slíkar framkvæmdir hafi í för með sér aukið umferðaröryggi, aukna hagkvæmni og skilvirkni samgangna, styttri ferðatíma, lægri flutningskostnað og jöfnun aðstöðu íbúa byggðarlaga.“

Það er allt rétt sem dregið er fram hér. Ég þakka hæstv. innanríkisráðherra að koma í þingsal og ég ítreka spurningar mínar til hans. Nú er tíminn að verða búinn en ég mun setja mig á mælendaskrá til að fá tækifæri til að spyrja hæstv. ráðherra þeirra spurninga sem ég varpaði fram í ræðu minni. Ég styð málið eins og það er lagt fram, en það vekur upp ákveðnar spurningar, spurningar sem ég hef ekki enn þá fengið svarað við af hálfu forustumanna í samgöngunefnd.