139. löggjafarþing — 146. fundur,  9. júní 2011.

stofnun hlutafélaga um vegaframkvæmdir.

789. mál
[12:27]
Horfa

Kristján L. Möller (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Til að taka af allan vafa: Auðvitað styð ég og hef alltaf gert framkvæmdir á norðausturhorninu til að nýta þá miklu orku sem þar er.

Varðandi forsendur sem hv. þingmaður gerir að umræðuefni, sem eru sennilega forsendur sem FÍB lagði fram á fyrstu stigum, þá voru þær kolrangar. Eftir ágætan fund sem stjórn Vaðlaheiðarganga átti með FÍB, þar sem FÍB kynnti útreikninga sína, sagði ég: Í raun og veru þarf ekki að halda fundinum lengur áfram vegna þess að þeir útreikningar sýndu að við vorum algjörlega sammála þegar þeir voru búnir að fá réttar forsendur. Það að framkvæmdirnar séu nauðsynlegar þarf ekki inn í sjálfbærni þessa verkefnis. 850 kr. útreiknað veggjald, miðað við þær forsendur sem við höfum sett inn, mun standa undir framkvæmdinni í 25 ár. Verði umferðarmagnið meira þá styttist tíminn. Verði umferðarmagnið minna þarf að lengja lánstímann. Þetta er sjálfbært og virkilega gott verk sem við þurfum að komast í sem allra fyrst eins og önnur góð verk.