139. löggjafarþing — 146. fundur,  9. júní 2011.

stofnun hlutafélaga um vegaframkvæmdir.

789. mál
[12:57]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (S) (andsvar):

Frú forseti. Mikið hefði ég óskað þess að fleiri hefðu verið í salnum til að hlýða á ræðu hv. þingmanns. Hann kemur með mjög skiljanlegar athugasemdir og efasemdir varðandi þetta frumvarp. Ég byggi afstöðu mína til framkvæmdarinnar á Vaðlaheiðargöngum m.a. á þeim útreikningum sem liggja fyrir og því að framkvæmdin muni ekki hafa áhrif á stöðu ríkissjóðs. Ég treysti útreikningunum. Þess vegna var ég að reyna að draga fram hvaða aðrir þættir gætu hugsanlega haft áhrif á arðbærni þessara ganga, eins og annað framkvæmdastig á Norðurlandi o.s.frv.

Allt sem hv. þingmaður sagði í ræðu sinni var fullgilt og þess eðlis, ekki síst í tengslum við eignarnámsheimildina sem slíka, að maður spyrji sig: Af hverju voru ekki fleiri, eins og stjórnskipunarfræðingar, sem fóru yfir þetta til að við séum trygg hér í þinginu? Það kom fram í svari hv. þm. Björns Vals Gíslasonar áðan að eingöngu Vegagerðin hefði mætt á fund nefndarinnar. Af hverju voru ekki aðrir fengnir til að veita umsögn um þetta mál eins og FÍB og fleiri? Það hefði ekki tafið málið. Það yrði til þess að við gerðum það sem við erum öll sammála um, ynnum verk okkar betur.

Þess vegna spyr ég hv. þingmann: Er hann sammála mér um að hv. samgöngunefnd eigi að taka málið aftur til sín á milli umræðna til að fara yfir athugasemdir hv. þingmanns sem og annarra sem hafa talað í þessari umræðu?