139. löggjafarþing — 146. fundur,  9. júní 2011.

rannsóknarnefndir.

348. mál
[13:33]
Horfa

Sigurður Kári Kristjánsson (S):

Virðulegi forseti. Hv. allsherjarnefnd tók þetta frumvarp eins og það lá fyrir í upphafi til gagngerrar endurskoðunar og það má segja að hvað mikilvæga þætti þess varðar hafi það nánast verið endurskrifað. Það hefur tekið miklum breytingum og er mun betra en það var í upphaflegu formi.

Ég vil minnast á það sérstaklega að þegar þingmannanefndin afgreiddi frá sér þingsályktunartillögu sem samþykkt var hér kom til umfjöllunar að taka til afgreiðslu fleiri óskir þingmanna um rannsóknir á ýmsum þáttum sem hér hafa verið til umræðu á síðustu missirum. Ein þeirra er tillaga okkar þingmanna Sjálfstæðisflokksins um að embættisfærslur núverandi og fyrrverandi ráðherra í ríkisstjórninni í Icesave-málinu yrðu rannsakaðar. (Forseti hringir.) Þeirri rannsókn var frestað á þeim grundvelli að bíða þyrfti eftir því að þetta mál yrði afgreitt. Nú er það gert og þá er okkur ekki til setunnar boðið að ráðast í rannsókn á Icesave-málinu eins og óskað hefur verið eftir.