144. löggjafarþing — 146. fundur,  3. júlí 2015.

stöðugleikaskattur.

786. mál
[10:13]
Horfa

Össur Skarphéðinsson (Sf) (um atkvæðagreiðslu):

Herra forseti. Ég lýsti strax stuðningi við stöðugleikaskattinn þegar hann var kynntur, enda byggði hann á hugmyndafræði sem hafði verið skoðuð og lögð fram í tíð fyrri ríkisstjórnar. Það kom hins vegar mér og öllum öðrum á óvart þegar síðar kom í ljós, eftir kynninguna frægu í Hörpu, að það hafði líka verið samið um sérstaka hjáleið við kröfuhafa, sem gerir þeim kleift að sleppa frá uppgjörinu með 400 milljörðum minni greiðslur í ríkissjóð en ella. Ég tel að óvissan sé öll á þeirri leið. Ég tel að hagsmunum Íslands sé tryggilega borgið með stöðugleikaskattinum. Eins og ég sagði þá styð ég hann. Hins vegar vil ég taka það alveg skýrt fram að út frá sjónarmiðum fjármálalegs stöðugleika ganga báðar þessar leiðir upp, en sú fyrri, þ.e. stöðugleikaskatturinn, er öruggari fyrir Ísland.