145. löggjafarþing — 146. fundur,  5. sept. 2016.

samningur Íslands og Evrópusambandsins um viðskipti með landbúnaðarvörur.

783. mál
[18:33]
Horfa

Árni Páll Árnason (Sf):

Virðulegi forseti. Ég vil fara nokkrum orðum um þetta mál enda mikið þjóðþrifamál. Vegna þess að nokkur umræða hefur spunnist um það hvort málið sé tengt breytingum á búvörulögum og búvörusamningi er rétt að ég upplýsi það að í öllum samtölum sem ég átti við þáverandi hæstv. landbúnaðarráðherra meðan á samningsgerð um búvörusamninga stóð, þá lýsti ég þeirri skoðun minni og okkar í Samfylkingunni að það væri algjörlega ljóst að samhliða áframhaldandi stórfelldum útgjöldum til stuðnings íslenskum landbúnaði sem við styddum þyrftu þau útgjöld að vera þannig að þau hefðu eins lítil neikvæð áhrif á samkeppni og kostur væri, styddu við framþróun í landbúnaði og samhliða þyrfti að koma innleiðing á þessum tollasamningi með þeim hætti að hann opnaði dyr eins og mögulegt væri fyrir íslenska neytendur. Vegna þess að það væri nauðsynlegt til að tryggja bæði gæða- og verðaðhald fyrir íslenskan landbúnað.

Ég tek eftir því í umræðunni að þingmenn Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs hafa tekið að sér að vera fulltrúar afturhalds og einangrunarhyggju og landlokunar í þessu máli. Ég verð að segja að mér þykir hugmyndaauðgin í því sem hér hefur verið fram borið af þeirra hálfu ansi mikil. En hér er aldrei sagt neitt nýtt. Eini valkosturinn við breytingar sem felast í þessum tollasamningi er einhvers konar hugsun um að landið eigi að vera lokað og víggirt, landbúnaður eigi bara að vera sjálfsþurftarframleiðslubúskapur fyrir íslenska þjóð en ekki samkeppnishæf atvinnugrein. Ég er í grundvallaratriðum ósammála þeirri stefnumörkun. Ég tek eftir að þingmenn VG hafa síðan pakkað þessu inn í orðskrúð sem tengist sjálfbærni og umhverfisspori og öðru slíku. En ef menn misnota með þeim hætti sjálfbærnishugtakið að reyna að byggja á því rökstuðning fyrir því að byggja tollmúra um ríkustu lönd í heimi þá eru menn jafnframt að segja að fátækustu lönd í heimi eigi alltaf að vera fátæk af því það megi aldrei flytja nokkurn hlut milli landa. Alþjóðaviðskipti ganga út á að þau lönd sem ríkust eru og hafa mesta kaupgetuna opni markaði sína fyrir framleiðsluvörum þeirra sem hafa samkeppnisyfirburði á öðrum sviðum og svo gagnkvæmt.

Það hefur mikið verið talað um hversu skaðlegt það sé að opna landið að þessu leyti fyrir innflutningi. Mér finnst ágætt að hugsa landbúnaðinn eins og aðrar atvinnugreinar. Við erum matvælaframleiðendur sem sinnum útflutningi í sjávarútvegi sem á engan sinn líka. Íslenskur sjávarútvegur hefur aukist og tekið tröllaukið stökk fram á við í gæðum og verðmæti eftir að við jukum útflutningsfrelsið, opnuðum markaði. Hugtakið gámafiskur var algengasta orðið í kvöldfréttum sjónvarps árið 1991. Hugtakið gámafiskur hefur ekki heyrst síðan við fórum í EFS vegna þess að nú er fiskur unninn á Íslandi. Við fluttum inn til landsins störf sem áður voru unnin í útlöndum, jukum verðmætin hér og bjuggum til ný tækifæri fyrir íslenskan sjávarútveg. Alveg sama getum við gert með landbúnaðinn. Af hverju er Mjólkursamsalan að semja um framleiðslu á skyri í útlöndum? Jú, það er vegna þess að við höfum ekki tollkvóta til að flytja það út. Við getum ekki fundið vinnu fyrir íslenskar hendur í íslenskum landbúnaði. Þess vegna hefur á ársþingi Alþýðusambands Íslands síðustu 15 árin stöðugt verið kallað eftir auknum aðgangi fyrir tollfrjálsan útflutning á landbúnaðarvörum til annarra landa til að hægt sé að fjölga störfum í íslenskum landbúnaði.

Framtíðarsýnin sem við fáum að heyra frá þingmönnum Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs — ég biðst afsökunar á því að taka þá mjög hérna fyrir því að þeir hafa stillt sér upp í stórskotaliðinu til varnar í þessu máli — framtíðarsýnin sem þeir bjóða upp á er sú að íslenskur landbúnaður eigi að vera grein þar sem störfum getur ekki annað en fækkað vegna þess að vélvæðing eykst, tæknin batnar og erfiðum störfum fækkar blessunarlega í landbúnaði eins og öllum öðrum greinum. Það þýðir þá að þar fækkar fólki alveg eins og í sjávarútveginum. Þar hefur fólki fækkað um 2% á ári frá 1990. En störf í greinum tengdum sjávarútvegi, þekkingargreinum, hafa aukist miklu meira. Þess vegna eru verðmætin sem sjávarútvegurinn býr til fyrir okkur svo mikil. Það er nákvæmlega það sama sem við getum gert í landbúnaði ef við bara hristum af okkur þetta ömurlega hugarfar afturhalds og einangrunarhyggju sem mun ekkert annað gera en kæfa landbúnaðinn.

Þekkt er sagan eftir John Steinbeck af risanum í Mýs og menn sem vildi vernda músina. Hann elskaði músina svo mikið að hann hélt henni í lófa sínum. En ást hans var svo mikil að hann gætti sín ekki og hann kramdi hana. Það er mikilvægt að menn varist það að drepa yndið sitt vegna þess að þeir vilji verja það svo mikið.

Tækifærin fyrir íslenskan landbúnað byggjast þvert á móti á því að opna landið núna, auka útflutningsmöguleika íslensks landbúnaðar vegna þess að við erum svo gæfusöm að við opnuðum ekki landið árið 1960 eða 1970 þegar áherslan var öll á verksmiðjuvædda framleiðslu, alveg eins og var hér með mjólkursölulögunum 1934 þegar samkeppnin var bönnuð milli framleiðenda. Vandinn er sá að VG er ekki enn þá búið að fatta að það er mjög vont að leyfa ekki samkeppni milli framleiðenda. Ef menn vilja alvöru lífrænan iðnað, ef menn vilja samkeppni á grundvelli uppruna og vörugæða, þá verður að leyfa samkeppni milli ólíkra vinnsluaðila. Það er nauðsynlegt.

Gamla mjólkursölukerfið frá 1934 var byggt á því að ekki var til nóg af mjólk og hún var ekki nógu holl og ekki nógu tryggt að hún væri hrein. Þess vegna fóru menn í það að byggja stórfellt vélvætt kerfi til hreinsunar á mjólk, vinna hana og senda hana eins á alla staði. Ég skil alveg sjónarmiðin þar að baki. Menn vildu tryggja aðgang að heilnæmri næringu fyrir fátækt fólk. Ég skil það alveg. En í því sköðuðu menn líka fjölbreytni og sóknarfæri í greininni. Það var bannað að selja Borgarnesskyr, sem var besta skyr á landinu, og öllu skyri hrært saman, jafnt lélegu skyri og góðu, og enn þann dag í dag er ekki í kerfinu auðvelt að finna uppruna vöru. Það er ekki auðvelt að greina skrokkana eftir nákvæmri gerð vegna þess að í kerfinu er enn þá að finna leifar þessarar skussaverndar þar sem allir eru verðlagðir eins og allt hrært í sama potti.

Þess vegna þegar Vinstri hreyfingin – grænt framboð kemur og myndar skjaldborg um ofbeldishegðun Mjólkursamsölunnar gagnvart minni keppinautum þá eru menn algjörlega vegavilltir á því hvert landbúnaðurinn þyrfti að vera að fara. Hann þarf nefnilega að fara meira og meira í fjölbreytnina. Eitt er það að einn aðili sjái um að safna mjólkinni um allt land, ég get svo sem alveg keypt það, það er enginn vandi að koma því fyrir. En að síðan séu margir litlir aðilar og margir aðilar sem keppi í vöruþróun og gæðum til að auka vörugæðin. Hvað er að gerast núna með tilkomu Örnu til dæmis? Jú, það er allt í einu komið fyrirtæki sem treystir sér til að bjóða miklu heilnæmara skyr og AB-mjólk, og þar er ekki nema helmingurinn af sykurmagninu sem okkur hefur verið boðið upp á frá Mjólkursamsölunni hingað til. Þannig að ef ekki hefði orðið fyrir þessa samkeppni frá Örnu þá værum við bara enn þá að grauta í okkur þessu sykurgumsi frá Mjólkursamsölunni óáreitt. Er það gott út frá einokunarsjónarmiðum? Nei. Þess vegna held ég að svo mikilvægt sé fyrir okkur að tileinka okkur sóknarhug fyrir íslenskan landbúnað.

Helsta áhyggjuefni mitt af þessum samningi er hvernig hann verður innleiddur. Ég hef áhyggjur af því að kvótarnir verði áfram boðnir upp. Hér höfum við fengið að heyra miklar varnarræður gagnvart því að veruleg hætta sé á að hingað komi inn ódýr matvæli og ekki nógu góð matvæli. Fyrirkomulagið með uppboðum og kvótum tryggir að við fáum ódýr matvæli vegna þess að menn bjóða svo mikið í kvótana að þeir hafa ekki efni á að kaupa dýrustu vöruna. Ef menn meina eitthvað með því að þeir vilji holla matvöru, gæðamatvöru, þá á að hætta að bjóða upp kvótana, því að þeir eru það sem þvingar innflytjendur til að taka alltaf ódýrustu vöruna í innflutningi. Þegar Ísland skrifaði upp á samninginn um Alþjóðaviðskiptastofnunina 1994 undirgengumst við það markmið að við vildum hafa tollkvótana sem áttu að tryggja jafnt samkeppni í verði og gæðum svo að varan kæmi inn á verði sem þvingaði innlenda framleiðslu til þess að vera ekki með einokunarprísa og gæðum þannig að það kæmi eitthvað annað heldur en vöruframboðið sem fyrir er. Við munum öll hvernig ostaframboðið var á Íslandi árið 1994, það hefur kannski ekki breyst neitt rosalega mikið hjá einokunarrisanum og mörgu ábótavant svo sem í vöruþróun þar, en samkeppnin utan frá var alltaf hugsuð til þess að veita innlendri framleiðslu þetta tvíþætta aðhald. Uppboð á innflutningskvótum eyðileggur þetta hvort tveggja, eyðileggur gæðaaðhaldið vegna þess að innflytjendurnir verða að flytja inn lakari vöru. Þess vegna finnst mér það skjóta skökku við þegar þeir sömu sem leggjast gegn því að við hættum að bjóða upp kvótana, koma hingað upp og kvarta yfir gæðum framleiðslunnar sem flutt er inn. Því meira sem kvótar eru boðnir upp þeim mun lakari vara verður flutt inn.

Síðan er það þannig að sú vara sem flutt er inn hingað til lands er auðvitað þannig úr garði gerð að hún verður að uppfylla gæðakröfur, sömu gæðakröfur og heilbrigðiskröfur og eru á innlenda framleiðslu. Hverju landi er síðan í sjálfsvald sett að setja upprunamerkingarkröfur. Það hefur Ísland bara ekki gert. Það er að hluta til vegna þess að arfleifð okkar í þessari grein er of mikið lituð af þessari sögu skussaverndarinnar. Að kerfið hefur ekki verið gírað inn á sérhæfingu og að þeir sem geri vel fái að njóta þess í verði og gæðum og vörumerki, heldur þvert á móti að öllu sé hrært í einn pott og það sem standi á nótunni sé bara svínakjöt, íslenskt. Svo fór ég að lesa smáa letrið, þar stóð upprunaland: Spánn. Þetta er heimaskapaður vandi. Þetta er sjálfskaparvíti Íslendinga. Við verðum að taka ákvörðun um hvernig við ætlum að hafa landbúnaðinn. Við getum ekki haldið áfram að gera eins og vinir mínir í Vinstri grænum að tala niður mikilvægi samkeppni á afurðastigi, mikilvægi vöruþróunar á afurðastigi og tala svo upp einokunarhyggjuna á móti. Þetta er algjörlega fráleitur málflutningur og vísar ekki áfram á nokkurn hátt fyrir íslenskan landbúnað.

Mikilvægasta verkefnið okkar núna er að þróa kerfið áfram þannig að stuðningurinn verði eins lítið framleiðsluhvetjandi eða framleiðslustýrandi og mögulegt er, hann styðji við dreifðar byggðir og búsetu þar, hann styðji við fjölbreytt verkefni sem bændur geti tekið að sér og fái greitt fyrir. Ég sé ekkert ofsjónum yfir fé sem varið er í stuðning við innlenda landbúnaðarframleiðslu, en ég sé ofsjónum yfir því ef það á að festa greinina áfram í sömu framleiðslufjötrum og við eigum að halda áfram að greiða, almenningur í landinu, með tollverndinni alla þá fjármuni sem verið er að greiða án þess að það vísi einhverja leið áfram fyrir greinina. Greinin á annað og betra skilið en að vera læst í þessum fjötrum ofstjórnar og einhæfni.

Það sem þessi takmarkaði innflutningur veitir er tvennt. Hann veitir aðhald fyrir innlenda framleiðslu, gæða- og verðaðhald ef kvótarnir verða gefnir en ekki boðnir upp. Og hann veitir kærkomið tækifæri fyrir þær greinar íslenskrar landbúnaðarframleiðslu sem geta flutt út og hafa sérstöðu til þess til að gera það. Gæfa okkar er sú, eins og ég sagði áðan, að við fórum ekki að flytja inn fyrir 30 árum síðan meðan alls staðar í Evrópu var enn þá iðnvæddur landbúnaður þar sem áherslan var á ódýrar kjúklingabringur, ódýrt þetta og ódýrt hitt, unnið í verksmiðjubúum og verksmiðjubúskap. Blessunarlega er orðin bara allt önnur áhersla alls staðar í hinum vestræna heimi hvað þetta varðar. Ég hef enga trú á öðru en íslenskir neytendur muni, ef íslensk stjórnvöld drattast til að innleiða upprunareglur, vera tilbúnir að greiða dýru verði góða vöru. Þegar mér var boðið upp á að kaupa íslenskt svínakjöt, upprunaland Spánn, þá hefði ég verið tilbúinn að borga tvöfalt hærra verð fyrir upprunamerkt svínakjöt frá fjölskyldubúi sem væri vottað með litla lyfjanotkun. Þetta eru allt hlutir sem við þurfum að byggja upp hjá okkur til að tryggja sérstöðuna. Fordæmi frá garðyrkjunni segir okkur að Íslendingar eru tilbúnir að borga tvöfalt hærra verð fyrir innlenda framleiðslu en erlenda ef hún er upprunamerkt og þeir tengja við hana. Það er því ekkert að óttast hvað það varðar.

Mér þykir því þessi málflutningur, þessi grautarlegi málflutningur þar sem öllu er hrært saman, jafnt heilbrigðiskröfum og upprunamerkingum og reynt að láta í það skína að að okkur steðji skelfileg vá vegna þess að hér séu að mokast inn einhverjar taílenskar kjúklingabringur, vera bara þannig að hann sé ekki mönnum bjóðandi. Okkur er í lófa lagið að setja þær upprunareglur sem við viljum setja. Þær geta þá gilt um alla, líka okkar eigin framleiðslu. Ég held að það sé mikilvægt fyrir hana. Ég held að sóknarfærin fyrir íslenska landbúnaðarframleiðslu séu óendanleg í þessum heimi, þar sem áherslan verður sífellt meiri á heilnæmi og uppruna og sífellt minni á vélvæðingu. Það er gæfa okkar að við erum að byrja að opna þessa umgjörð nákvæmlega núna þegar hugmyndin um verksmiðjubúskap hefur, hvað eigum við að segja, lifað sig úti í hinum stóra heimi.

Ég ætla að hafa það sem lokaorð mín að ég trúi því sannarlega að íslenskur landbúnaður geti vaxið. Þess vegna er þessi samningur svo mikilvægur. Það er svo mikilvægt að setja fram hugsunina inn í þessa grein, hætta að horfa á hana sem grein sem sé algjörlega óhugsandi að geti vaxið og horfa á hana sem grein þar sem við búum til þær væntingar að geti fjölgað störfum, aukið framleiðslu og flutt út. Það væri gaman. Ég held það væri besta gjöfin sem við getum gefið íslenskum landbúnaði, að skapa þær aðstæður.