138. löggjafarþing — 147. fundur,  24. júní 2010.

tímabundin greiðsluaðlögun fasteignaveðkrafna á íbúðarhúsnæði.

671. mál
[11:48]
Horfa

Unnur Brá Konráðsdóttir (S):

Hæstv. forseti. Við ræðum hér frumvarp til laga um breytingu á lögum nr. 50/2009, um tímabundna greiðsluaðlögun fasteignaveðkrafna á íbúðarhúsnæði. Þetta mál hófst þannig í þinginu að frumvarp til breytinga á þessum lögum var lagt fram af hæstv. félags- og tryggingamálaráðherra. Í ljós kom við yfirlestur nefndarinnar að ráðist þyrfti í umfangsmiklar breytingar á lagatextanum og því var valið í þessu máli eins og tveimur öðrum að leggja fram nýtt frumvarp á vegum félags- og tryggingamálanefndar. Það frumvarp var mjög til bóta miðað við það sem lagt var fram af hæstv. ráðherra en tilgangurinn með frumvarpinu var að festa í sessi úrræði laga nr. 50/2009 þannig að það yrðu lög sem giltu til frambúðar og það er eðlilegt. Þetta úrræði mun væntanlega verða notað sjaldnar vegna greiðsluaðlögunarfrumvarpsins sem við ræddum hér fyrr í dag en engu að síður er mikilvægt að það haldi gildi sínu. Við þurfum að skoða hvernig framkvæmd laganna verður með þessum áorðnu breytingum og meta hvort það eru fullnægjandi breytingar sem við ætlum að ráðast í.

Þegar nefndin hafði eytt miklum tíma í að vinna þessi mál kom í ljós að þingdögum fór fækkandi og þess vegna var það krafa okkar sjálfstæðismanna, sem aðrir flokkar tóku síðan undir, að taka þennan dag hér til að ræða þessi mál og fá yfirlestur á þessu máli frá réttarfarsnefnd. Ég fagna því að það var gert vegna þess að hér eru lagðar til allnokkrar breytingar á frumvarpi því sem félags- og tryggingamálanefnd hafði þó endurskrifað frá því að það kom úr ráðuneytinu. Ég tel því að við stöndum hér eftir með frumvarp til laga sem er til bóta og er tiltölulega einfalt og að við höfum náð að skera það niður nú á síðustu dögum þannig að það nái markmiðum sínum, það er ágætt. Það er náttúrlega tilgangurinn með þessu öllu saman, að þau úrræði sem félags- og tryggingamálanefnd boðar hér og óskar eftir að verði lögfest, virki þannig að þetta sé skilvirkt og einfalt að því marki sem það er hægt þegar menn eru komnir í það mikil vandræði að þeir þurfa að leita í þessi úrræði.

Ég fagna þeirri miklu vinnu sem fór í þetta mál. Það voru nokkuð mörg álitaefni sem flæktust fyrir okkur í þeirri vinnu. Eins og ég sagði í fyrri ræðu minni er það ekki einfalt verkefni að finna lausn á því hvað gera skal þegar reyna fer á skuldaskil og menn eru komnir í mikil greiðsluvandræði. En engu að síður er þetta verkefni sem hægt er að einhenda sér í og ég held að við höfum sýnt það í vinnu nefndarinnar að það er hægt að taka mál sem eru tiltölulega hrá þegar þau koma inn í þingið, kollvarpa þeim og vinna þau í nefndinni.

Hins vegar er algjörlega ljóst að ef þetta er það sem koma skal verðum við að styrkja Alþingi. Ég tel reyndar að það sé rétt leið að lagafrumvörp séu oftar skrifuð á þingið sjálfu, ég tel að það sé til fyrirmyndar. Hins vegar er þetta búið að vera svolítið strembið vegna þess að hið frábæra starfsfólk sem við þingmenn höfum okkur til aðstoðar hér hefur takmarkaðan tíma og þingið hefur að sjálfsögðu skorið niður í rekstri sínum. En ég tel að það sé mjög mikilvægt, sérstaklega í ljósi rannsóknarskýrslu Alþingis þar sem er töluvert fjallað um Alþingi og störf þess, að við hugum vel að þessum þætti og við munum gera það í umfjöllun um skýrslu rannsóknarnefndarinnar.

Ég tel að það væri mjög æskilegt að menn legðu höfuðið svolítið í bleyti yfir sumarið, þeir þingmenn sem hafa áhuga á þessu máli og sérstaklega þá þeir sem hafa reynslu úr félags- og tryggingamálanefnd, með hvaða hætti væri hægt að vinna þessi mál betur og meira hérna í þinginu þannig að löggjafarsamkundan hafi meira sjálfstæði í vinnubrögðum sínum og þurfi ekki að leita allrar ráðgjafar og allra tækja og tóla að mestu leyti hjá framkvæmdarvaldinu. Ég tel að þetta gæti orðið mikil breyting fyrir okkur öll bæði á vinnubrögðum og hugarfari og það yrði líka til þess að auka frumkvæði þingmanna.

Vissulega hafa þingmenn verið nokkuð duglegir margir hverjir við að leggja fram þingmannamál en sjaldnast fá þau sérstakan framgang í nefndum. Það þykir nauðsynlegt að þau fái betri vinnslu áður en þau verða tæk til þess að verða afgreidd hér í þinginu. Með því að styrkja enn frekar nefndasvið Alþingis, styrkja enn frekar stuðning við þingmenn og þingnefndir til þess að sjá sjálf um að leysa brýn úrlausnarefni með tillögum að lagasetningu, tel ég að við munum ná stórum áfanga í því að breyta vinnubrögðum okkar hér. Ég verð að segja að eftir veru mína hér á þingi í eitt ár tel ég algjörlega nauðsynlegt að þingið endurskoði hvernig það vinnur, hvernig það setur saman áætlanir sínar, hvernig það setur saman dagskrá sína.

Við getum tekið dæmi af deginum í dag þar sem umræða um þessi mál átti að hefjast klukkan ellefu, en öllum að óvörum byrjaði hún klukkutíma fyrr. Ég er ekki bara að hugsa um okkur þingmenn sem þurfum að stökkva til og byrja að tala, það er minnsta málið, þetta er meira álag á allt kerfi Alþingis, allt nefndasviðið sem er að reyna að afgreiða þessi nefndarálit okkar og öll þau gögn sem við höfum verið að skrifa upp á undanförnum dögum. Þeim þarf að koma hérna inn í þingið á réttum tíma og það er nauðsynlegt að okkur séu búnar þær starfsaðstæður, bæði hv. alþingismönnum sem og okkar ágæta starfsliði, að hægt sé að gera þetta með sæmilegum brag. Það er mikilvægt að við höfum það öll í huga.

Vissulega gengur oft mikið á á síðustu dögum þingsins en engu að síður er þetta eitthvað sem við þurfum að læra af og við skulum einsetja okkur öll að gera það.