138. löggjafarþing — 147. fundur,  24. júní 2010.

viðbrögð ríkisstjórnarinnar við hæstaréttardómum um gengistryggð lán.

[14:53]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F):

Virðulegi forseti. Ég vil koma með ábendingu til virðulegs forseta ef það yrði til að leysa þetta mál. Það er á þann veg að í febrúar var lagt fram mál af sama meiði og það sem hér er verið að ræða, þ.e. um flýtimeðferð. Ég hygg að ef hv. þingmenn Sjálfstæðisflokks hefðu kynnt sér það hefðu þeir kannski lagt áherslu á að þetta mál færi í gegn.

Síðan vil ég gjarnan benda á það sem hæstv. dómsmálaráðherra benti á, frú forseti, að hægt er að fara með mál í flýtimeðferð. Hingað til höfum við getað treyst orðum dómsmálaráðherra og ég vona svo sannarlega að ekki sé þörf á að draga það í efa núna.