139. löggjafarþing — 147. fundur,  9. júní 2011.

skattar í vanskilum.

[13:58]
Horfa

fjármálaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg):

Frú forseti. Eftir því sem ég best veit er þetta svipuð tala og rúllað hefur á undan undanfarin ár í þessum efnum, því miður, þannig að það er ekkert nýtt við þetta. Þó að þetta séu háar tölur, það er alveg rétt, hafa jafnan verið talsvert háar fjárhæðir í vanskilum eins og það er skilgreint, gjöld sem ekki hafa verið greidd innan tilskilinna gjalddaga. Núna síðastliðin tvö ár hafa verið afskrifaðir u.þ.b. 9–10 milljarðar kr. á hvoru ári um sig af þessum stabba í lokafjárlögum. Ef eitthvað er horfir kannski heldur til betri tíðar, sérstaklega hvað varðar lögaðila sem eru í vanskilum, vegna þess að aðgerðir til að auðvelda þeim að gera upp ógreiddar eldri skattskuldir hafa skilað heilmiklum árangri og eitthvað á milli 500 og 1.000 fyrirtæki hafa nýtt sér þann möguleika að færa slíkar skuldir yfir á skuldabréf til nokkurra ára og greiða samkvæmt því. Áskilnaðurinn í þeim tilvikum er þannig að fyrirtækin komi samtímagreiðslum sínum í skil og standi síðan í skilum jafnóðum með það sem til fellur og þá er gamla skuldin greidd upp með skuldabréfinu. Ég þekki ekki nákvæmlega fjárhæðirnar sem þar eru í húfi, en það er nokkuð ljóst að sú aðgerð mun án efa skila ríkinu að lokum mun betri endurheimtum úr þessum vangoldnu sköttum en ella hefði orðið.

Miðað við þær upplýsingar sem ég hef „på stående fod“, svo maður sletti nú aðeins dönsku, er ekki að verða mikil breyting á þessu og minni en jafnvel hefði mátt ætla miðað við þá miklu erfiðleika sem atvinnulífið og einstaklingar hafa verið að ganga í gegnum.