139. löggjafarþing — 147. fundur,  9. júní 2011.

áhrif frumvarps um stjórn fiskveiða.

[14:21]
Horfa

Jón Gunnarsson (S):

Virðulegi forseti. Það er alveg rétt hjá hæstv. forsætisráðherra að ég hef kallað hana friðarspilli í þessu máli og ég stend við það. Ég legg þar til grundvallar ítrekuð ummæli hennar á opinberum vettvangi í garð þeirra sem starfa í þessari grein og hafa starfað um áratugaskeið. Er þar kannski lítill greinarmunur gerður á smáum og stórum. Eins það hvernig hún hefur oft hagað orðum sínum gagnvart þeim sem unnið hafa af heilindum í sáttanefndinni og komist þar að sameiginlegri niðurstöðu. Þá á ég við fulltrúa stjórnarandstöðuflokkanna, hvernig meðhöndlun við höfum fengið frá hæstv. ráðherra í umræðunni undanfarið.

Ég vil inna hæstv. forsætisráðherra eftir því, af því að hún dregur í efa að umsögnin frá fjármálaráðuneytinu standist, hvort hún hafi eitthvert lögfræðilegt álit í höndunum, hvort hún hafi látið framkvæma lögfræðilega úttekt í ráðuneyti sínu á því að þarna sé farið með rangt mál.

Ég vil einnig inna hana eftir því hvort henni finnist eðlilegt að ekki sé búið að vinna þessa hagfæðilegu úttekt. (Forseti hringir.) Enn liggur ekki fyrir hin mikilvæga niðurstaða varðandi hagfræðileg áhrif á málaflokkinn og þar með þjóðhagsleg áhrif. Finnst hæstv. ráðherra eðlilegt að við afgreiðum (Forseti hringir.) málið áður en sú niðurstaða liggur fyrir og menn geta tekið þetta til eðlilegrar málefnalegrar umfjöllunar?