139. löggjafarþing — 147. fundur,  9. júní 2011.

losun gróðurhúsalofttegunda.

710. mál
[14:37]
Horfa

Frsm. minni hluta umhvn. (Vigdís Hauksdóttir) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það var nefnilega það. Upptaka þessa kerfis kallast nú herkostnaður. Má þá ekki segja að íslenska sjávarútvegskerfið hafi borið þennan sama herkostnað þó að Samfylkingin og Vinstri grænir vinni nú ötullega á móti því og reyni að kollvarpa því? Það er góð spurning sem þingmaðurinn ætti að svara.

Hún kom inn á það að íslenskir flugrekendur þurfi að sitja við sama borð og evrópskir. Það er vissulega rétt, þeir fara hér inn í þetta kerfi, en ég bendi jafnframt þingmanninum á að hér liggur svo mjög á að setja þessi lög að Alþingi Íslendinga er ekki gefið ráðrúm til að bíða eftir því að sjá úrslitin í dómsmáli bandarískra flugrekenda gagnvart Evrópusambandinu um hvort ekki sé um skatt að ræða samkvæmt Chicago-samningnum. Nú þurfa aðilar utan Evrópusambandsins að kaupa sig inn á svæðið. Er ekki óeðlilegt (Forseti hringir.) að ekki skuli vera beðið með lagasetningu þessa þar til dómstóllinn hefur að minnsta kosti komist að niðurstöðu? Ef dómstóllinn kemst að þeirri niðurstöðu (Forseti hringir.) að um skattlagningu sé að ræða er málið dautt.