139. löggjafarþing — 147. fundur,  9. júní 2011.

losun gróðurhúsalofttegunda.

710. mál
[17:14]
Horfa

Frsm. meiri hluta umhvn. (Álfheiður Ingadóttir) (Vg) (um fundarstjórn):

Frú forseti. Eftir 10 mínútur eru liðnar þrjár klukkustundir frá því að 2. umr. umræða um frumvarpið hófst. Ég mælti þá fyrir nefndaráliti sem á eru allir nefndarmenn í hv. umhverfisnefnd að undanskildum hv. þingmanni Vigdísi Hauksdóttur. Hér hafa tekið til máls fimm hv. þingmenn Sjálfstæðisflokksins, þar af báðir fulltrúar Sjálfstæðisflokksins í hv. umhverfisnefnd, sem hafa lýst miklum stuðningi við frumvarpið. Þeir hafa kallað eftir því að því verði lokið sem fyrst og hv. þm. Birgir Ármannsson tók svo djúpt í árinni að segja að hann teldi að þetta mál þyrfti að hafa forgang umfram önnur mál í afgreiðslu þingsins.

Ég hafði því fulla ástæðu til að ætla að þingmenn Sjálfstæðisflokksins styddu málið og vildu ljúka því í dag.