145. löggjafarþing — 147. fundur,  6. sept. 2016.

framkvæmdaáætlun í jafnréttismálum 2016--2019.

764. mál
[17:52]
Horfa

Frsm. allsh.- og menntmn. (Líneik Anna Sævarsdóttir) (F):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir nefndaráliti um tillögu til þingsályktunar um framkvæmdaáætlun í jafnréttismálum fyrir árin 2016–2019 frá allsherjar- og menntamálanefnd. Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund fjölda gesta. Umsagnir bárust frá níu aðilum og komu umsagnaraðilar til fundar við nefndina. Þess má geta, sem ekki kemur fram í nefndaráliti, að samhliða framkvæmdaáætlun í jafnréttismálum var fjallað um framkvæmdaáætlun í málefnum innflytjenda. Þannig tóku sumir gestir sem sérstaklega voru kallaðir til vegna annars málsins þátt í umfjöllun um bæði málin án þess að þeir hefðu sent inn sérstaka umsögn.

Þingsályktunartillaga í jafnréttismálum er lögð fram samkvæmt 11. gr. laga um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla og felur í sér sjöttu framkvæmdaáætlun íslenskrar ríkisstjórnar í jafnréttismálum. Framkvæmdaáætlunin skiptist í sjö hluta og er þar kynnt 21 verkefni sem ætlað er að vinna að markmiði laganna um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla í íslensku samfélagi. Er því fyrirkomulagi ætlað að tryggja að áherslur og forgangsröðun stjórnvalda á sviði jafnréttismála birtist skýrt í framkvæmdaáætluninni.

Ég fer að nokkru í gegnum nefndarálitið en það skiptist í sjö kafla eins og verkefnin. Stjórnsýslan er fyrsta verkefnið. Í kafla um stjórnsýslu er fjallað um átak í samþættingu jafnréttissjónarmiða við alla ákvörðunartöku og stefnumótun í stjórnkerfinu í samræmi við jafnréttislög og áherslu á kynjaða hagstjórn og fjárlagagerð. Við meðferð málsins hjá nefndinni var bent á að í lögum um jafna stöðu og jafnan rétt karla og kvenna eru lagðar skyldur á sveitarfélög um samþættingu jafnréttissjónarmiða og fram kom ósk um að ríkið mundi styðja við þróunarstarf sveitarfélaga á umræddu sviði. Nefndin bendir á að verkefni á vegum sveitarfélaga eiga almennt ekki heima í framkvæmdaáætlunum ríkisstjórna nema þegar um samstarfsverkefni er að ræða. Nefndin bendir hins vegar á að sveitarfélög geta sótt um fjármagn í Jafnréttissjóð Íslands til verkefna sem snúa að samþættingu jafnréttissjónarmiða.

Í 7. kafla er fjallað um úttekt á jafnréttislögum og stjórnsýslu jafnréttismála. Fram kom á fundum nefndarinnar að fyrirhugað er að fela Ríkisendurskoðun úttekt á stjórnsýslu jafnréttismála sem er einmitt í samræmi við ábendingar sem komu til nefndarinnar frá umsagnaraðilum.

Nefndin áréttar einnig að nauðsynlegt sé að kanna hvort markmið núgildandi laga og fyrirkomulag stjórnsýslu sé í samræmi við þá þróun sem átt hefur sér stað á síðustu árum. Einnig er að mati nefndarinnar mikilvægt að meta hvernig til hafi tekist að innleiða metnaðarfull ákvæði jafnréttislaga frá árinu 2008 og greina hvaða ástæður liggja að baki þar sem innleiðingin hefur ekki tekist.

Nefndin bendir jafnframt á að lengi hefur staðið til að innleiða tilskipanir Evrópusambandsins um mismunun með setningu laga um jafna meðferð á vinnumarkaði og jafna meðferð óháð kynþætti eða þjóðernisuppruna sem byggjast á tilskipun um almennar reglur um jafna meðferð á vinnumarkaði og í atvinnulífi og tilskipun um framkvæmd meginreglunnar um jafna meðferð án tillits til kynþáttar eða þjóðernis. Að mati nefndarinnar er nauðsynlegt að kanna hvort markmið núgildandi laga og fyrirkomulag stjórnsýslu sé í samræmi við þá þróun sem átt hefur sér stað og hvort undirbúa eigi gerð almennrar löggjafar um bann við mismunun á grundvelli fleiri mismununarbreyta en kynferðis. Það væri þá í samræmi við löggjöf annars staðar á Norðurlöndum, en slík löggjöf mun kalla á breytingar á stjórnsýslu jafnréttismála. Það sem er í rauninni verið að fara út í hér samkvæmt áætluninni er grundvöllur að frekari endurskoðun á lögum með tilliti til fleiri þátta en kynjajafnréttis.

Annar hluti snýr að vinnumarkaði og launajafnrétti kynja. Á gildistíma framkvæmdaáætlunar verður áfram unnið að framkvæmd og eftirfylgni þeirra verkefna sem tilgreind eru í aðgerðaáætlun um launajafnrétti kynja. Nefndin telur mikilvægt að tryggja innleiðingu jafnlaunastaðals og að fram fari markvisst kynningarstarf á vottun jafnlaunakerfa samkvæmt reglugerð um vottun jafnlaunakerfa fyrirtækja og stofnana á grundvelli staðalsins. Nefndin bendir jafnframt á að í velferðarráðuneytinu hefur starfshópur verið skipaður um tilraunaverkefni um styttingu vinnutíma án kjaraskerðingar. Unnið er að markmiðssetningu og nánari útfærslu verkefnisins og hvernig staðið skuli að vali á þeim vinnustöðum sem taka þátt í því.

Þriðja verkefnið er kyn og lýðræði. Á gildistíma framkvæmdaáætlunar er ætlunin að mennta- og menningarmálaráðuneytið beiti sér fyrir könnun á aðgengi og birtingarmyndum kvenna og karla, stúlkna og drengja í fjölmiðlum og vinni að stefnumótun á því sviði. Nefndin bendir á að nýlegar rannsóknir sýna að konur og karlar birtast ekki í jöfnum hlutföllum í fjölmiðlum og sú mynd sem dregin er upp af konum endurspeglar hvorki fjölda þeirra í forustu atvinnulífsins né hátt menntunarstig íslenskra kvenna. Einnig er lagt til að innanríkisráðuneytið beri ábyrgð á framkvæmd rannsóknar um stöðu hælisleitenda og flóttamanna út frá jafnréttis- og mannréttindasjónarmiðum. Ekki hefur verið gerð slík heildarrannsókn hér á landi á áhrifum kyns í hælis- og flóttamannamálum og fagnar nefndin þessum áætlunum.

Fjórði hlutinn er kynbundið ofbeldi og ofbeldi í nánum samböndum. Í 13. kafla er fjallað um samstarfsverkefni þriggja ráðuneyta um aðgerðir gegn ofbeldi. Velferðarráðuneytið mun hafa yfirumsjón með verkefninu en markmið þess verður að bæta samvinnu og verklag við ofbeldisforvarnir og styrkja samstarf við rannsókn ofbeldismála. Einnig verður lögð rík áhersla á samvinnu við frjáls félagasamtök. Nefndin fagnar þessu en áréttar að til þess að markmið verkefnisins náist þarf formlega aðkomu heilbrigðisráðherra og þar með heilbrigðisþjónustunnar að verkefninu.

Mig langar að skýra þetta aðeins nánar en gert er í nefndarálitinu. Það kom fram á fundum nefndarinnar að þrátt fyrir að heilbrigðisráðherra hafi ekki verið með á samstarfsyfirlýsingu ráðherranna þriggja um aðgerðir gegn ofbeldi gerði stýrihópurinn sem heldur utan um verkefnið ráð fyrir að starfsmenn bæði skrifstofu félagsþjónustu og skrifstofu heilbrigðisþjónustu velferðarráðuneytisins tæki þátt í starfinu.

Þá hafa fulltrúar heilbrigðiskerfisins tekið þátt í fundum, starfsdögum og svæðisbundnu samráði um aðgerðir til að koma í veg fyrir ofbeldi, styrkja rannsókn mála o.fl. Þannig hefur áhersla verið lögð á að tryggja aðkomu heilbrigðiskerfisins að verkefninu. Vegna þess að heilbrigðiskerfið er hluti af verkefninu telur nefndin mikilvægt að skýrt sé að heilbrigðisráðherra hafi formlega aðkomu að verkefninu og heilbrigðisþjónustan þar með. Öllum sem að verkefninu koma ætti því að vera það ljóst.

Þá er það fimmta verkefnið sem er jafnrétti í skólastarfi. Fram kemur í 15. kafla áætlunarinnar að mennta- og menningarmálaráðuneytið hafi á gildistíma framkvæmdaáætlunarinnar yfirumsjón með verkefnum sem lúta að jafnrétti í skólastarfi. Jafnrétti er einn af sex grunnþáttum menntunar samkvæmt aðalnámskrá frá árinu 2013.

Nefndin fagnar því að jafnréttisfræðsla verði efld á öllum skólastigum en telur engu að síður mikilvægt að háskólar landsins innleiði kynjafræði í grunnnám allra kennaranema ef það markmið á að nást. Nefndin telur einnig mikilvægt að markvisst verði unnið að því að jafna kynjahlutföll starfsmanna á öllum skólastigum með gerð aðgerðaáætlunar og getur sú vinna tengst e-lið 1. mgr. 18. kafla. Leggur nefndin til breytingu þar að lútandi.

Þetta eru einu efnislegu breytingarnar sem nefndin leggur til. Ég ætla að útskýra þær aðeins. Þær breytingar fela í sér að í 15. kafla bætast við tveir nýir stafliðir, annars vegar að við bætist að gerð aðgerðaáætlunar til að jafna kynjahlutföll starfsfólks skóla á öllum skólastigum og hins vegar að hvetja háskóla til að innleiða kynjafræði í grunnnám kennaranema og að starfandi kennurum bjóðist námskeið í kynjafræðum. Fyrri hluti tillögunnar er í fullu samræmi við 8. kafla áætlunar þar sem sérstök áhersla er lögð á að fjölga körlum í umönnunar- og kennslustörfum. Með þeirri viðbót er ætlunin að tengja það markmið betur við skólakerfið.

Seinni tillagan stendur í samhengi við a-lið 15. kafla í áætluninni, sem sagt í sama kafla um jafnrétti í skólastarfi, og er til að undirbyggja frekar eflingu jafnréttisfræðslu á öllum skólastigum. Umsagnaraðilar bentu á að forsenda þess væri að kennarar fengju góðan þekkingargrunn í kynjafræðum. Þá kom fram á fundi nefndarinnar að um þessar mundir væri boðið upp á hagnýtt námskeið í jafnréttis- og kynjafræðslu fyrir starfandi grunnskólakennara á vegum jafnréttisnefndar Kennarasambands Íslands og Jafnréttisstofu. Þar komast færri að en vilja. Hins vegar kom fram að þeir háskólar sem bjóða upp á kennaranám hafa verið að innleiða kynjafræði í námið og er kynjafræði t.d. nú orðin hluti af námi allra kennaranema við Háskólann á Akureyri.

Þá er það sjötti hlutinn í áætluninni, karlar og jafnrétti. Í 18. kafla er kveðið á um að tillögum nefndar um karla og jafnrétti, sem skipuð var á grundvelli áætlunar í jafnréttismálum fyrir árin 2011–2014, verði hrundið í framkvæmd. Sérstök verkefnisstjórn verður mynduð um verkefnið og verður það á ábyrgð velferðarráðuneytisins. Það er skilningur nefndarinnar að undir verkefnið falli að staða og réttindi kynja eftir skilnað og/eða sambúðarslit hvað varðar umönnun barna verði jöfnuð.

Sjöundi hlutinn snýr svo að alþjóðastarfi. Í 20. kafla er lögð áhersla á að umræða um jafnréttismál á norðurslóðum verði efld og kastljósinu beint að stöðu kvenna og karla.

Í ljósi þeirra athugasemda sem fram komu á fundum nefndarinnar um skort á samráði bendir nefndin á að hafist hafi verið handa við gerð nýrrar framkvæmdaáætlunar um mitt ár 2014 þegar óskað var eftir formlegum tillögum að verkefnum frá ráðuneytum, Jafnréttisstofu og Jafnréttisráði. Nefndin fékk upplýsingar um að framvinda áætlunarinnar hefði verið kynnt reglulega, einkum á mánaðarlegum samráðsfundum ráðuneytisins með Jafnréttisráði og fulltrúum ráðuneytanna. Að frumkvæði velferðarráðuneytisins var samráðsferlinu komið á árið 2012 í því augnamiði að formfesta samráð og styrkja stjórnsýslu jafnréttismála.

Nefndin bendir á að staðan á vinnumarkaði sýnir að enn er langt í land á sviði jafnréttismála hér á landi og þörf er á markvissum aðgerðum til úrbóta. Meðal umfangsmikilla verkefna er að jafna kjaramun kynjanna og vinna gegn hinni þrálátu kynjaskiptingu vinnumarkaðarins. Það verður gert með aðgerðum sem snúa beint að vinnumarkaðnum annar vegar og hins vegar aðgerðum sem snúa að skólakerfinu.

Nefndin leggur til að þingsályktunartillagan verði samþykkt með þeim breytingum sem gerð er tillaga um í þskj. 1585. Þær breytingar eru, eins og áður, sagði fyrst og fremst tæknilegs eðlis utan þeirra tveggja sem snúa að jafnrétti í skólastarfi og framsögumaður hefur farið yfir nú þegar.

Undir álitið rita hv. þingmenn Vilhjálmur Árnason, Jóhanna María Sigmundsdóttir, Haraldur Einarsson, Ásta Guðrún Helgadóttir, Guðmundur Steingrímsson, 1. varaformaður, og Líneik Anna Sævarsdóttir framsögumaður. Hv. þingmenn Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir og Geir Jón Þórisson voru fjarverandi við afgreiðslu málsins og Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir skrifar undir álitið með fyrirvara.

Að lokum vil ég þakka gott samstarf í nefndinni og við þá gesti og umsagnaraðila sem komu til fundar við nefndina.