138. löggjafarþing — 147. fundur,  24. júní 2010.

viðbrögð ríkisstjórnarinnar við hæstaréttardómum um gengistryggð lán.

[14:46]
Horfa

Ragnheiður E. Árnadóttir (S):

Virðulegur forseti. Hér hefur verið rætt um að samkomulag forustumanna flokkanna komi í veg fyrir að við getum tekið á dagskrá þingmannamál sem hefði þau áhrif að draga verulega úr óvissu í mikilvægu máli sem skekur þjóðfélagið einmitt um þessar mundir. Ég bendi á, frú forseti, að umrætt samkomulag var gert áður en dómur Hæstaréttar féll. Ég skora á hæstv. forseta að beita sér fyrir því að þessu samkomulagi verði hnikað til, vegna þess að ég trúi því ekki fyrr en ég tek á því í ljósi þeirra vinnubragða sem við höfum einmitt ástundað hér, að veita afbrigði og hleypa málum nærri umræðulaust í gegn ef um þau er samkomulag, en að hægt verði að ná samkomulagi einmitt um þetta mál núna til að (Forseti hringir.) forða fjölskyldum í landinu frá frekari óvissu og koma í veg fyrir að þær þurfi að bíða lengur eftir úrlausn sinna mála.