138. löggjafarþing — 147. fundur,  24. júní 2010.

viðbrögð ríkisstjórnarinnar við hæstaréttardómum um gengistryggð lán.

[14:56]
Horfa

Atli Gíslason (Vg):

Frú forseti. Varðandi það hvort taka eigi þetta frumvarp á dagskrá eða ekki vil ég taka fram að ég virði góðan vilja hv. þm. Sigurðar Kára Kristjánssonar, en fjármálafyrirtækin hafa heimildir í dag í gegnum innheimtuferli fyrst hjá sýslumanni og síðan með ágreiningsskoti til héraðsdóms og kæru til Hæstaréttar að afgreiða ágreining um vexti á einum og hálfum, tveimur eða tveimur og hálfum mánuði. Það eru auk þess fullnægjandi ákvæði í einkamálalögunum um flýtimeðferð og þeir tveir dómar sem eru til umræðu voru reknir sem flýtimeðferðarmál og sama heimild gildir um öll mál, ef þau eru brýn og áríðandi og miklir fjármunir í húfi fæst flýtimeðferð. (Gripið fram í: Með fjár…) Ég legg með þessu orð í belg, frú forseti, varðandi ákvarðanatöku um það hvort taka eigi þetta mál á dagskrá eða ekki.