139. löggjafarþing — 147. fundur,  9. júní 2011.

skattar í vanskilum.

[14:00]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (F):

Virðulegur forseti. Þetta er töluverð hækkun á ógreiddum áföllnum sköttum. Hæstv. fjármálaráðherra nefnir reyndar að fyrir árin 2009 og 2010 hafi verið afskrifaðir samtals rúmir 19 milljarðar sem bætast þá væntanlega við þá upphæð sem eftir stendur, 127 milljarðana, og ég spyr: Að hversu miklu leyti er gert ráð fyrir þessum 127 milljörðum sem eign hjá ríkinu? Hvað gera menn ráð fyrir að stór hluti innheimtist og hvað gera menn þá ráð fyrir stórum hluta af þessu sem eign í bókum ríkisins? Þetta eru slíkar upphæðir að það hlýtur að þurfa að meta það þegar menn reyna að leggja mat á stöðu ríkissjóðs.

Svo ítreka ég spurninguna um hvað þetta segir okkur um stöðu fyrirtækja þegar til að mynda vangreiddur áfallinn virðisaukaskattur nemur yfir 45 milljörðum kr. Hvaða sögu segir þetta okkur um stöðu fyrirtækjanna? Og að hversu miklu leyti er gert ráð fyrir þessum 127 milljörðum sem eign í bókum ríkissjóðs?