139. löggjafarþing — 147. fundur,  9. júní 2011.

fólk í fjárhagsvandræðum vegna lánsveða.

[14:06]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á að þakka hæstv. forsætisráðherra fyrir hreinskilið svar. Í fljótu bragði man ég ekki eftir jafnhreinskilnu svari hjá hæstv. forsætisráðherra. Það er þó ekki útilokað að það hafi verið einhvern tímann. Hæstv. forsætisráðherra lýsti því yfir að hún hefði ekki nein tök á málinu en óskaði í leiðinni eftir því að við ynnum í því saman.

Skuldamálin eru í fullkomnum ógöngum. Út af fyrirspurn minni um umboðsmann skuldara um daginn frétti ég að á tíu mánuðum væri búið að afgreiða 22 mál af 2.800. Það segir allt sem segja þarf. Ég er 1. flutningsmaður að frumvarpi sem gengur út á að einfalda ferlið og ég lít svo á að nú ætli hæstv. forsætisráðherra í fullri alvöru að leggja við hlustir þegar við hv. þingmenn stjórnarandstöðunnar komum fram með hugmyndir. Fram til þessa hefur ekki verið neinn samningsvilji hvað það varðar og að sjálfsögðu (Forseti hringir.) skulum við setjast saman yfir þetta mál. Ég hlakka til að eiga gott samstarf við hæstv. forsætisráðherra um skuldamál heimilanna, bankamálin, efnahagsmálin og annað sem virkilega (Forseti hringir.) brennur á. Ég fagna þessum tóni og það hvarflar ekki að mér, virðulegi forseti, eina stutta stund (Forseti hringir.) að þetta sé innantómt tal. Það er örugglega innstæða fyrir þessu.