139. löggjafarþing — 147. fundur,  9. júní 2011.

samningsmarkmið í ESB-viðræðum.

[14:10]
Horfa

Vigdís Hauksdóttir (F):

Virðulegi forseti. Eftir á hef ég skilning á því hvers vegna hæstv. utanríkisráðherra og Samfylkingin börðust svo mjög fyrir því að breytingartillaga sú sem ég flutti við ESB-umræðuna yrði felld. Hún fól í sér að skilyrða ætti samningsmarkmið Íslendinga gagnvart sambandinu. Það var unnið vel og lengi á bak við tjöldin að því að þetta yrði ekki að veruleika þar sem ég lagði til að þau skilyrði sem Íslendingar ættu að standa vörð um færu inn í beinan þingsályktunartillögutexta.

Hv. formaður utanríkismálanefndar taldi það óþarft vegna þess að skilyrði Framsóknarflokksins kæmu fram í greinargerð með þeirri tillögu sem síðar var samþykkt. Þessu var ég alltaf mótfallin enda hefur komið á daginn að hæstv. utanríkisráðherra virðist vera að fara með þetta umsóknarferli langt út fyrir heimildir Alþingis, meira að segja út fyrir það sem stendur í greinargerðinni sjálfri, en ekki er talað um skilyrði í þingsályktunartillögutextanum sjálfum.

Mig langar til að spyrja hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra: Er verið að vinna að einhverjum alvarlegum samningsmarkmiðum sem á að setja fyrir sjávarútveg og landbúnað í þessu aðlögunarferli? Eru fleiri skilyrði í landbúnaðarmálum en þau sem Bændasamtökin settu? Hefur ráðherrann verið beittur þrýstingi af hæstv. utanríkisráðherra í þessum málaflokkum? Að síðustu langar mig til að spyrja hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra hvað líði þessu regluverki um tollakerfið sem á að setja upp. Er enn á borðinu að það verði styrkt af Evrópusambandinu upp á 4 milljarða eða kemur íslenska ríkið til með að borga það, eins og hæstv. (Forseti hringir.) utanríkisráðherra hefur hótað?