139. löggjafarþing — 147. fundur,  9. júní 2011.

áhrif frumvarps um stjórn fiskveiða.

[14:23]
Horfa

forsætisráðherra (Jóhanna Sigurðardóttir) (Sf):

Virðulegi forseti. Ég held að það sé nú ofsagt sem hv. þingmaður segir og ég hef heyrt aðra þingmenn segja, að ég hafi kallað þá sem starfa í þessari grein öllum illum nöfnum. Það er ekki rétt. Ég hef bara farið með staðreyndir í þessu máli, ég hef sagt að um langan tíma, tvo áratugi, hafi verið ósætti um fiskveiðistjórnarkerfið. Því er verið að reyna að breyta í þessu máli, m.a. er verið að reyna að koma á meira jafnræði í greininni og koma í veg fyrir að þeir sem hafa aflaheimildirnar fénýti þær og taki himinháa leigu af þeim sem þurfa að leigja aflaheimildir. Það hef ég vissulega sagt. Ég hef kallað eftir meira jafnræði og nýliðun í þessari grein og ég segi ekkert annað en sannleikann í því máli.

Ég hefði talið æskilegt að þessar álitsgerðir hefðu legið fyrir fyrr og hef rætt það við sjávarútvegsráðherra. En þessir aðilar töldu sig þurfa þetta langan tíma í málinu. En ég veit ekki hvort það þarf að koma að sök í þessu máli vegna þess að við höfum frestað stóra málinu (Forseti hringir.) fram á næsta ár þannig að það er einungis hið minna mál sem verið er að afgreiða. Ég tel að það þurfi ekki að hafa nein slæm áhrif á greinina sem græddi t.d. 45 milljarða kr. á árinu 2009.