139. löggjafarþing — 147. fundur,  9. júní 2011.

verslun með áfengi og tóbak.

703. mál
[23:07]
Horfa

Frsm. efh.- og skattn. (Helgi Hjörvar) (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Það er athyglisvert að heyra þessi sjónarmið í sama orðinu, andstöðu við hvers kyns forsjárhyggju í þessum málum en um leið eindreginn vilja til þess að hafa áhrif á vínmenningu í landinu.

Ég held að sú áhersla sem er lögð í nefndarálitinu sé sú að í beitingu vöruvalsreglnanna eigi verslunin að gæta meðalhófs og jafnræðis. Ég held að það lýsi sömu varnaðarorðum frá nefndinni og hv. þingmaður hafði uppi um að mikilvægt er að þær reglur séu ekki misnotaðar. Það er ástæða til að undirstrika að þær eru í gildi og hafa verið í gildi þannig að við erum kannski fyrst og fremst að setja um þær fastari skorður og það tryggir betur réttaröryggi þeirra sem eiga undir verslunina að sækja. Eins er óhjákvæmilegt að hafa það í huga að Áfengis- og tóbaksverslunin hefur einkasöluleyfi á áfengi. En auðvitað er það þannig að í starfsemi hennar koma fram alls kyns áherslur í framsetningu á vörum, vöruúrvali o.s.frv. Það er mikilvægt að þær áherslur séu á einhverjum forsendum og það eru þá væntanlega nærtækustu forsendurnar fyrir löggjafann til að vísa til í því sambandi, þ.e. samfélagsábyrgð, stefna stjórnvalda á hverjum tíma í þessum tilteknu málefnum eins og hún er samþykkt í ríkisstjórn á hverjum tíma og endurspeglast í lögunum. Á hverju öðru ætti verslunin að byggja?

Auðvitað eru ýmiss konar afurðir sem kunna að innihalda áfengi sem við höfum öll skilning á að Áfengis- og tóbaksverslunin vilji ekki bjóða í verslunum sínum af því að þær þjóna annarlegum markmiðum, eins og að venja börn eða ungmenni langt undir aldri á áfengisneyslu, (Forseti hringir.) særa blygðunarkennd fólks með hróplegum hætti, eða annað slíkt. (Forseti hringir.)