139. löggjafarþing — 147. fundur,  9. júní 2011.

upplýsingaréttur um umhverfismál.

690. mál
[23:09]
Horfa

Flm. (Skúli Helgason) (Sf):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um breytingu á lögum nr. 23/2006, um upplýsingarétt um umhverfismál.

Í þessu frumvarpi eru lagðar til breytingar á löggjöf er snertir umhverfis- og mengunarmál. Tilefnið er alvarlegur brestur í upplýsingagjöf til almennings vegna díoxínmengunar frá sorpbrennslustöðinni Funa í Skutulsfirði í Engidal.

Sem kunnugt er af fréttum mældist magn díoxíns, sem er þrávirkt efni, tuttugufalt yfir þeim viðmiðunarmörkum sem almennt gilda um sorpbrennslustöðvar þegar mælingar voru gerðar árið 2007 á svæðinu. Niðurstaða mælinganna var ekki kynnt íbúum á Ísafirði og var sorpbrennslustöðin Funi starfrækt í rúm tvö ár eftir að upplýsingar um mælingarnar höfðu verið birtar opinberum aðilum. Þetta mál komst í hámæli í desember síðastliðnum þegar díoxín mældist í mjólk úr kúm í Engidal í gæðaeftirliti Mjólkursamsölunnar. Vöknuðu við það áhyggjur að heilsufarsáhrifum mengunarinnar á íbúa í Holtahverfi og Engidal sem og á þá sem starfað hafa í sorpbrennslustöðinni eða í næsta nágrenni við hana.

Fram kom í fjölmiðlum að ábúendur í Engidal fundu fyrir heilsukvillum og óttuðust um heilsufar sitt. Það hvernig málið bar að vakti að vonum áleitnar spurningar um hvernig reglubundnu mengunareftirliti væri háttað en þó sérstaklega upplýsingaskyldu við almenning. Það var merkilegt nokk ekki sá aðili sem ber ábyrgð á eftirliti með sorpbrennslustöðvum, Umhverfisstofnun, heldur Mjólkursamsalan sem uppgötvaði eitrunina í kúnum í Engidal sem opinberaði málið gagnvart almenningi.

Í kjölfar fréttar um mikla díoxínmengun frá sorpbrennslustöðinni Funa í Skutulsfirði ákvað umhverfisnefnd Alþingis að skoða nánar þá löggjöf um umhverfismál og upplýsingaskyldu stjórnvalda er snýr að mengunarmálum. Hv. þm. Ólínu Þorvarðardóttur var falið það verkefni en hún hafði sýnt frumkvæði við að vekja máls á þessu máli í umhverfisnefnd og er 1. flutningsmaður frumvarpsins sem hér er kynnt og er bein afleiðing af þeirri úttekt sem hv. þm. vann fyrir umhverfisnefnd Alþingis.

Þeir lagabálkar sem komu sérstaklega til skoðunar voru lög nr. 46/1980, um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum, lög nr. 7/1998, um hollustuhætti og mengunarvarnir, og lög nr. 23/2006, um upplýsingarétt um umhverfismál.

Niðurstaða greiningarinnar sem hv. þm. Ólína Þorvarðardóttir hafði veg og vanda af var að kveða þyrfti skýrar á um frumkvæðis- og viðbragðsskyldu stjórnsýslustofnana í íslenskri löggjöf og um rétt almennings til að vernda heilsu sína og lífsgæði.

Í frumvarpinu eru lagðar til breytingar á lögum nr. 23/2006, um upplýsingarétt um umhverfismál. Í þessum lögum kemur fram að markmið þeirra sé að tryggja almenningi aðgang að upplýsingum um umhverfismál sem stjórnvöld hafa yfir að ráða til að stuðla að sterkari vitund um málefni á umhverfissviði, frjálsum skoðanaskiptum og aukinni þátttöku almennings í ákvarðanatöku um umhverfismál. Voru lögin sett til innleiðingar á tilskipun 2003/4/EB um almennan aðgang að upplýsingum um umhverfismál.

Í lögunum liggur áherslan á rétt almennings til að fá upplýsingar, og skyldu stjórnvalda til að veita þær og miðla þeim greiðlega og skipulega. Að mati flutningsmanna þessa frumvarps er hins vegar hvorki í lögunum né tilskipun Evrópusambandsins beinlínis kveðið á um frumkvæðisskyldu stjórnvalda þar sem þau fela ekki í sér bein fyrirmæli til stjórnvalda um að veita óumbeðnar upplýsingar og viðvaranir vegna mengunarhættu.

Bent hefur verið á að tilskipun Evrópusambandsins sé ekki afdráttarlaus en flutningsmenn telja að hana megi þó skilja á þann veg að stjórnvöld hafi frumkvæðisskyldu í upplýsingagjöf sé mengunarhætta til staðar.

Eru því lagðar til breytingar á þremur greinum laganna; markmiðsákvæði laganna, 5. gr. sem fjallar um upplýsingarétt almennings um umhverfismál og loks 10. gr. sem fjallar um almenna miðlun upplýsinga um umhverfismál. Er vonast til þess að með breytingunum verði staða almennings gagnvart stjórnvöldum og skylda stjórnvalda tryggð sem og að tryggður verði réttur fólks til að búa við heilsusamleg skilyrði og varðveita lífsgæði sín.

Ég tel að eðlilegt sé, okkur til varnaðar sem gegnum starfi löggjafans, að fara örlítið yfir þær lagagreinar sem gerðar eru breytingar á í frumvarpinu. Sérstaka athygli vekur 5. gr. sem fjallar um upplýsingarétt almennings um umhverfismál en í gildandi lögum segir með leyfi forseta:

„Stjórnvöldum þeim sem falla undir 2. gr. er skylt, sé þess óskað, að veita almenningi aðgang að fyrirliggjandi upplýsingum um umhverfismál með þeim takmörkunum sem greinir í 6. gr. Stjórnvöldum er ekki skylt að afla sérstaklega upplýsinga til þess að láta almenningi þær í té.“

Þetta vekur óneitanlega athygli og er barn síns tíma. Það eru þó ekki nema fimm ár síðan þessi löggjöf var samþykkt á hinu háa Alþingi. Þau orð um að stjórnvöldum sé skylt að veita almenningi aðgang að fyrirliggjandi upplýsingum um umhverfismál, sé þess óskað, vekja óneitanlega athygli í samhengi við það mál sem hér er undir þar sem fram komu mælingar um díoxínmengun sem var tuttugufalt yfir viðmiðunarmörkum. Þær upplýsingar liggja fyrir í upphafi árs 2008, í kjölfarið fara fram bréfaskipti á milli Umhverfisstofnunar og bæjaryfirvalda í Ísafjarðarbæ, en almenningur fær ekkert að vita um ástandið og er ekki gert viðvart um hugsanlega hættu sem heilsu íbúanna stafar af menguninni fyrr en einkafyrirtækið Mjólkursamsalan sendir frá sér upplýsingar um mengun í desembermánuði 2010.

Þetta er ótrúlegt og ég leyfi mér að fullyrða að löggjöf af þessu tagi mundi ekki fara í gegnum hið háa Alþingi í dag. Ég held sem betur fer að við séum betur á varðbergi gagnvart frumvörpum sem koma frá framkvæmdarvaldinu í dag. Því miður hafa menn brennt sig illa á því að láta hluti fara hér lítt hugsaða í gegn á undanförnum árum en vonandi er sá tími liðinn.