145. löggjafarþing — 147. fundur,  6. sept. 2016.

störf þingsins.

[14:00]
Horfa

Svandís Svavarsdóttir (Vg):

Forseti. Samkvæmt ársreikningi Alcoa fyrir árið 2015 greiddi fyrirtækið ekki tekjuskatt á Íslandi í fyrra þrátt fyrir það að velta rúmlega 90 milljörðum kr. Það er vegna þess að skuldir fyrirtækisins eru metnar hærri en eignir þess hér á landi. Raunar hefur fyrirtækið aldrei greitt fyrirtækjaskatt á Íslandi enda ekki skilað hagnaði hér. Alcoa á Íslandi hefur hins vegar greitt móðurfélagi sínu í Lúxemborg tæplega 57 milljarða kr. í vexti frá byggingu álversins í Reyðarfirði. Á sama tíma hefur bókfært tap numið rúmlega 52 milljörðum kr. Rúmlega 4,5 milljarða kr. munur er á greiðslum Alcoa á Íslandi til móðurfélagsins í Lúxemborg og taprekstri fyrirtækisins frá árinu 2013. Skýringuna á bókfærðu tapi má því rekja að öllu leyti og rúmlega það til greiðslnanna til móðurfélagsins í Lúxemborg.

Fram hefur komið í fjölmiðlum að Indriði Þorláksson, fyrrverandi ríkisskattstjóri, telur miklar líkur á að Alcoa beiti þessari aðferð til að koma fjármunum frá starfsemi álversins án þess að þurfa að greiða skatta af rekstrarhagnaði fyrirtækisins á Íslandi. Indriði segir í viðtali við Stundina í júní 2015: „Þetta er bara tilbúið tap.“

Fjármálaráðherra fór í mikla vörn í umræðunum í þinginu í gær um þessa sjálfsögðu skattlagningu á risastór iðnfyrirtæki og gat ekki neitað sér um það að hnýta auk þess í fréttaflutning RÚV um málið. En ef fjármálaráðherra og formaður Sjálfstæðisflokksins er svo áfram um að láta þessi stórfyrirtæki borga viðunandi tekjuskatt, af hverju hefur hann þá ekki lagt fram frumvarp um það? Af hverju stafar þetta aðgerðaleysi? Hvað hefur það kostað? Hver ber ábyrgð á því? Fyrir hverja eru ráðherrar ríkisstjórnarinnar að vinna, almenning í landinu eða alþjóðleg álfyrirtæki?

Við búum við afleita raforkusamninga sem tryggja álverum rafmagn langt undir markaðsvirði. Þau njóta umtalsverðra ívilnana á grundvelli sérstakra samninga. Við það bætist svo að þau leita allra leiða til að komast undan því að greiða eðlilega skatta til samfélagsins, rétt eins og þeir einstaklingar og fólk sem opinberað var hér með Panama-skjölunum.

Hvers vegna hefur þetta ekki verið gert? Hvers vegna hefur ekkert verið gert til að koma í veg fyrir þetta? Hér hefur legið fyrir frumvarp frá hv. þm. Katrínu Jakobsdóttur um að settar verði reglur um þunna eiginfjármögnun (Forseti hringir.) allt frá þinginu 2013. Nú ætlar fjármálaráðherra (Forseti hringir.) að gera eitthvað. Nú fyrst segist hann ætla að gera eitthvað. Er það sannfærandi, virðulegur forseti?


Tengd mál

Efnisorð er vísa í ræðuna