145. löggjafarþing — 147. fundur,  6. sept. 2016.

Vatnajökulsþjóðgarður.

673. mál
[16:48]
Horfa

Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir svarið. Mig langaði í seinna andsvarinu að ræða við hann um það sem hann sagði um óbyggð víðerni og að við þyrftum að skila náttúrunni í betra ásigkomulagi, ef eitthvað er, en við fengum hana í hendur. Hér hefur auðvitað verið rætt töluvert um gjaldtöku. Mig langar aðeins að spyrja þingmanninn út í viðhorf hans til gjaldtöku. Við höfum rætt töluvert hér á þingi um millilandaflug og dreifingu ferðamanna og hvernig við getum minnkað álagið á þær perlur sem verða fyrir mestri áníðslunni. Hann kom ágætlega inn á það þegar hann nefndi m.a. vesenið sem er við Geysi og við Jökulsárlón vegna þess að þar er eignarhaldið eins og það er. Það er auðvitað hluti af vandamálinu. Svo er það stýring eða ekki stýring, ég veit ekki hvað maður á að segja, það er auðvitað stýring inn á þessi svæði en kannski af meira kappi en forsjá, ég held að segja megi það, því að svæðin eru farin að láta verulega á sjá. Jafnvel þó að viðkomandi aðilar eigi þessar perlur þá eru innviðirnir kannski ekki tilbúnir til að taka á móti þeim fjölda ferðamanna sem þegar kemur þangað. Mig langar til þess að inna þingmanninn eftir því hvernig hann sér fyrir sér gjaldtöku eða ekki gjaldtöku og þá með hvaða hætti. Það er komið aðeins inn á það í frumvarpinu varðandi Vatnajökulsþjóðgarð að heimilt sé að fara í ákveðna gjaldtöku. En hvernig sér hann gjaldtökuna fyrir sér heilt yfir og þá kannski til að stýra og vernda?