139. löggjafarþing — 148. fundur,  10. júní 2011.

verslun með áfengi og tóbak.

703. mál
[11:37]
Horfa

Eygló Harðardóttir (F) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Sú breyting sem sérstaklega er verið að ræða hér, að leggja niður stjórn ÁTVR, er eitthvað sem ég tel mjög mikilvægt að starfandi verkstjóri ríkisstjórnarinnar hafi frumkvæði að við að taka til endurskoðunar. Hv. þáverandi þingmaður, Jóhanna Sigurðardóttir, lagði ítrekað fram tillögur um aukið atvinnulýðræði hjá opinberum stofnunum og fyrirtækjum á vegum hins opinbera, þar á meðal komu fram hugmyndir frá fulltrúum Samfylkingarinnar um að starfsmenn ættu að hafa allt að því þriðjung stjórnarmanna í stjórnum á vegum hins opinbera. Ég tel að það sé mjög brýnt að núverandi ríkisstjórn og stjórnarliðar taki afstöðu til þess hvort þeir hafi í hyggju að framfylgja þeirri stefnu sem var mótuð 1996 eða hvort þeir vilji setja fram eigin stefnu í þessu máli.