145. löggjafarþing — 149. fundur,  8. sept. 2016.

byggðamál.

[11:20]
Horfa

Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Byggðamálin og það að jafna aðstöðu landshlutanna er mikið sanngirnismál, en það er því miður engin raunveruleg byggðastefna að verki á Íslandi í dag eins og verkin sýna. Byggðastefnan er bara orð á blaði.

Samt er lag núna í því góðæri sem mikið er gumað af að rétta við og jafna stöðu byggðanna með góðum samgöngum og öflugum nettengingum svo hægt sé að sameina sveitarfélög, atvinnu-, búsetu- og þjónustusvæði. En því fer fjarri að þessir megininnviðir séu alls staðar í viðunandi horfi. Þvert á móti eru þeir verulega hamlandi þáttur í byggðaþróun víða um land. Eins og við vitum liggur t.d. vegakerfið víða undir skemmdum og langt því frá að internettengingar séu í lagi eins og þær ættu að vera. Það er auðvitað ekki boðlegt á öðrum áratug 21. aldar og gengur í berhögg við þá opinberu stefnu að samþætta þjónustu, sameina stofnanir, atvinnusvæði og sveitarfélög. Það verður æ meira aðkallandi að sveitarfélögin fái t.d. að njóta tekna af vaxandi ferðamannastraumi þannig að þau geti sjálf tekist á við aðkallandi verkefni en það bólar ekkert á slíkri stefnumótun enn.

Við vitum auðvitað að traust þjónusta í heimabyggð og gott aðgengi að menntun og menningu eru mjög mikilvæg byggðamál, en því miður er það ekki heldur í viðunandi horfi. Síðustu aðgerðir ríkisstjórnarinnar, að beita fjárveitingavaldi til að hamla inngöngu 25 ára og eldri í framhaldsskólana, er eitt dæmi um það og ber ekki vott um að mikill skilningur sé á mikilvægi menntunar til að jafna aðstæður og bæta lífskjör á landsbyggðinni.

Núna væri lag til að laða fólk að byggðum landsins með grænum greiðslum, (Forseti hringir.) byggðatengdum skattaívilnunum — af hverju ættu þær bara að nýtast stórfyrirtækjum? — en ekkert af þessu er verið að gera því að það er engin byggðastefna við lýði á Íslandi í dag.