132. löggjafarþing — 15. fundur,  4. nóv. 2005.

Bensíngjald og olíugjald.

30. mál
[11:22]
Hlusta

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég var ekki að lýsa sérstaklega afstöðu minni til þessa máls heldur var ég að spyrja hv. þingmann og benda á ýmis rök sem mæla gegn því að þetta yrði tekið upp.

Það er ekkert allt í lagi að hafa háa skatta. Ég er síðasti maðurinn til að taka undir það. En skattar á olíu og bensín hafa verið notaðir til vegagerðar á Íslandi og við höfum gert stórátak í okkar dreifbýla landi í því að leggja vegi og það kostar mikið. Það skýrir hve skattarnir eru háir. En þeim var breytt árið 1999 í fasta krónutölu. Bensínverð væri núna sennilega 10–15 kr. hærra ef það hefði ekki verið gert að frumkvæði þáv. hæstv. fjármálaráðherra, þannig að ríkissjóður tekur fasta krónutölu af bensínverðinu. Það sem hækkar er eingöngu hækkunin á heimsmarkaðsverði og ég veit ekki hvort það telst skynsamlegt, frú forseti, að við Íslendingar förum að niðurgreiða þá hækkun. Ég tel það ekki skynsamlegt af því að þetta er takmörkuð auðlind, í hugum sumra alla vega, og hátt verð á að endurspegla það að hún sé takmörkuð og það á að draga úr notkuninni.

Varðandi það að þetta komi inn í kjarasamninga og annað slíkt, þá er það rétt. En ég hygg að þeir aðilar sem þar sitja og véla um samninga muni að sjálfsögðu líta til þess að þessi þáttur verðlagsins er vegna þess að eftirspurn eftir olíu hefur vaxið á Indlandi og í Kína og muni ekki krefjast launahækkana eingöngu á grundvelli þess.