132. löggjafarþing — 15. fundur,  4. nóv. 2005.

Lífeyrisréttindi hjóna.

33. mál
[12:18]
Hlusta

Flm. (Guðmundur Hallvarðsson) (S):

Virðulegi forseti. Ég þakka þær umræður og undirtektir sem þetta mál hefur fengið hér. En mér þykir miður að aðeins ein kona er í þingsal, virðulegi forseti, og hún er jafnframt meðflutningsmaður minn að þessu merkilega máli.

Athyglisvert var að heyra að hv. þingmaður Pétur H. Blöndal minnist ársins 1976 þegar þetta kom fyrst til umræðu og hv. fyrrverandi þingmaður Guðmundur H. Garðarsson var þá í samstarfi með honum við að útbúa þetta mál, enda var hann, eins og ég gat um áðan, 1. flutningsmaður þessa máls á 112. þingi. Hér erum við nú enn og þetta er í þrettánda sinn sem málið er flutt.

Ég tek alveg undir með hv. þingmanni Pétri Blöndal að öll umræðan um réttindi, launaréttindi milli kynja, umræðan um launamisrétti milli kynja o.s.frv. og allt þetta tal er mjög athyglisvert. Ég bendi á að hér er eitt mál á dagskrá í dag um þessi réttindamál sem er verið að ræða um. Við sjáum fundi úti í bæ, kvenfélagasamtök og aðra að ræða málin. Ég ætla að taka það aftur fram hins vegar að áhugaleysi er ekki algjört meðal kvenna. Ég minni á að við flutningsmenn fengum fyrir nokkrum árum síðan jákvæð bréf frá öllum kvenfélögum landsins og kvenfélagasamtökum enda sendum við bréf og frumvarpið með því. Þá var rætt um að breyta hjúskaparlögunum, þ.e. 102. gr., í þá veru að lífeyrisréttindi féllu ekki utan skipta eins og það stendur nú. Í viðræðum við þá sem stjórna lífeyrissjóðum þessa lands höfum við hins vegar gert okkur grein fyrir því að þetta mál er nokkuð vandmeðfarið að því tilliti sem tekur til flýtiréttar áunninna lífeyrisréttinda svo og örorku og fleiri þátta sem við teljum eðlilegt að séu utan þessa máls. Við teljum að fyrst og fremst eigi aðeins að líta til áunninna lífeyrisréttinda.

Hv. þingmaður Pétur Blöndal kom inn á áhættuna og mun á milli stétta. Það er alveg rétt og það hefur alltaf blasað við og það veit hv. þingmaður Pétur Blöndal betur en ég enda stærðfræðingur og þekkir tryggingamál vel sem lúta að lífeyrismálum. En þetta þekkjum við hv. þm. Ögmundur Jónasson líka vel sem höfum starfað í verkalýðshreyfingunni og áttum okkur alveg á misjafnri stöðu lífeyrissjóðanna sem byggist m.a. á því sem hv. þingmaður Pétur Blöndal kom inn á. Það er alveg rétt. Það er miklu hættumeira starf að vera til sjós en að vera í landi. Örorkuþáttur Lífeyrissjóðs sjómanna er einn sá stærsti af öllum lífeyrissjóðunum. Hann er ákveðið tiltekið vandamál sem ég held að þá sem lögðu upp með lífeyrissjóðina hafi alls ekki órað fyrir og að þeir hafi ekki getað séð fyrir þá stöðu Lífeyrissjóðs sjómanna nú að útborgun vegna örorkuþáttarins er hærri en lífeyrisgreiðslurnar. Auðvitað hefði það því verið eðlilegt að hafa þennan þátt innan Tryggingastofnunar ríkisins þannig að það væri sameiginleg trygging vinnuveitenda og ríkisvalds en ekki sjóðfélaganna að standa undir því ef menn verða öryrkjar til sjós. Þetta er náttúrlega mjög óeðlilegt. Þá stæðu þessir lífeyrissjóðir miklu betur að vígi gagnvart skuldbindingum sínum en þeir gera í dag. Hins vegar er það mál allt á réttri leið og vona ég að ekki líði langur tími þar til lífeyrissjóðirnir standi miklu betur undir greiðslum til aldraðra en raun ber vitni í dag.

Við hv. þingmaður Pétur Blöndal erum alveg sammála um að fjölskyldan er hornsteinn þessa þjóðfélags. Þess vegna er mjög sérkennilegt að það skuli vera svo í hjúskaparlögunum að eðlilegt teljist að bíllinn og steinsteypan, húsnæðið og aðrar peningalegar eignir komi til skipta en ekki sú upphæð sem hefur myndast til réttindaávinnslu í lífeyrissjóðunum. Það er undarlegt að hún skuli standa utan við hjúskaparlögin. Það er mjög sérstakt.

Ég þakka svo aftur fyrir umræðuna sem hér hefur farið fram og tek ég það enn fram að þetta er í þrettánda sinn sem þetta mál er flutt á Alþingi. Ég heiti á alþingiskonur, hvar í flokki sem þær standa, að fylkja sér um þetta mál og ég heiti á kvenfélögin úti um allt land, kvenfélagasamtökin: Fylgist þið nú með þessu máli. Hvetjið þið til þess að ykkar þingmenn komi nú þessu máli í höfn. Það er réttindamál ykkar.